136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

innsöfnun, endurnýting og endurvinnsla.

367. mál
[14:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég beini hér tveimur fyrirspurnum til hæstv. umhverfisráðherra:

1. Er hafin innsöfnun og endurnýting á raftækjum eins og til stóð frá 1. janúar sl.?

2. Er ætlunin að hvetja til endurvinnslu á hjólbörðum?

Hefja átti móttöku á raftækjum um síðustu áramót. Eins og ég hef skilið stöðu mála hefur það gengið frekar hægt og mig langar að inna hæstv. umhverfisráðherra eftir því hvort það sé rétt og hvað standi til að gera til úrbóta ef svo er.

Sveitarfélögin áttu að vera í samstarfi við einkaaðila á þessum markaði og þeir áttu að leysa sameiginlega innköllun raftækja og koma kerfinu heildstætt á laggirnar. Ég vil sem sagt spyrja hæstv. umhverfisráðherra um stöðu mála varðandi raftækin.

Í öðru lagi spyr ég hæstv. ráðherra að því hvort til standi að hvetja til endurvinnslu á hjólbörðum en árlega falla til rúmlega fjögur þúsund tonn af dekkjum eða hjólbörðum á landinu. Þau hafa verið flutt úr landi en núna skilst mér að nýta eigi undanþáguákvæði um að urða dekkin, nota þau sem einhvers konar drenlag á urðunarstað Sorpu, þannig að það á að farga dekkjunum í jörð, sem er kannski ekki besta leiðin í endurvinnslu, alla vega ekki ef einhverjar aðrar og betri leiðir gefast. Mér er kunnugt um að það eru áhugasamir aðilar sem vilja gjarnan athuga annars konar endurvinnslu á dekkjunum, þ.e. að búa til hráolíu úr þeim og eiga þeir erindi inni í umhverfisráðuneytinu varðandi það mál. Ég inni hæstv. umhverfisráðherra eftir því hvort henni hafi gefist tími til þess að skoða það verkefni. Ef svo er, hvort ráðherra hæstv. telji að rétt sé að fara lengra með slíkar hugmyndir, af því að það hlýtur að vera hagkvæmara, miðað við þær upplýsingar sem ég hef, að fara í endurvinnslu þannig að hægt sé að búa til hráolíu úr dekkjunum í stað þess að urða þau, en þá verða auðvitað að vera fjárhagslegar forsendur fyrir því. Alla vega hef ég heyrt rök um að þær forsendur séu fyrir hendi.

Ég vildi því gjarnan spyrja hæstv. umhverfisráðherra (Forseti hringir.) hvort hún hyggist hvetja til slíkrar endurvinnslu.