136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

innsöfnun, endurnýting og endurvinnsla.

367. mál
[14:57]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr um hvort hafin sé innsöfnun og endurnýting á raftækjum eins og til stóð frá 1. janúar sl.

Skilakerfi eða -kerfum ber að taka við raf- og rafeindatækjaúrgangi sem til fellur á söfnunarstöðum sveitarfélaganna í samræmi við lög nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, en samkvæmt 14. gr. þeirra laga skulu söfnunarstöðvar sveitarfélaganna bjóða upp á aðstöðu fyrir móttöku raf- og rafeindatækjaúrgangs frá heimilum. Í 5. gr. reglugerðar nr. 1104/2008, um raf- og rafeindatækjaúrgang, er kveðið á um að söfnunarstöðvar sveitarfélaga skuli leggja til gámastæði fyrir skilakerfi á söfnunarstöðvunum.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 55/2003 ber skilakerfi að tryggja söfnun og móttöku raf- og rafeindatækjaúrgangs frá heimilum á söfnunarstöðvum sveitarfélaga og í samráði við sveitarfélög alls staðar á landinu. Þannig lúta skyldur sveitarfélaga að því að leggja til aðstöðu fyrir söfnunarílát fyrir raf- og rafeindatækjaúrgang en skyldur skilakerfanna snúa að því að leggja til gáma á söfnunarstöðvunum, ákveða gerð þeirra, flytja þá til og frá söfnunarstöðvum og tryggja að förgun úrgangsins sé í samræmi við lög.

Það hefur tekið nokkurn tíma að koma í framkvæmd framangreindu kerfi um raf- og rafeindatækjaúrgang, það er rétt hjá hv. þingmanni. Enda var ljóst í upphafi, eins og kom fram í umfjöllun umhverfisnefndar á sínum tíma, að það væri umfangsmikið verkefni að koma á svokallaðri framleiðendaábyrgð vegna raf- og rafeindatækjaúrgangs en undir það gengumst við með Evrópusambandstilskipun fyrir tveimur, þremur árum. Í því verki er og nauðsynlegt að allir aðilar sem hlut eiga að máli vinni saman og séu samtaka í verkefninu. Þar á ég við alla framleiðendur rafeindatækja sem á endanum verða að úrgangi, innflytjendur rafeindatækja og sveitarfélögin.

Á fyrstu dögum mínum í umhverfisráðuneytinu tóku hagsmunaaðilar upp mál við mig vegna raf- og rafeindatækjaúrgangs. Nýja skilakerfið, RR-skil, hefur verið í sambandi við mig, Samband íslenskra sveitarfélaga sömuleiðis, og mér hefur verið gerð grein fyrir því að það hafi verið ákveðnir erfiðleikar við að koma kerfinu á. En úr því sem komið er tel ég að reyna verði til þrautar að koma á þessu kerfi. Til að liðka fyrir framkvæmdinni og leiða saman hagsmunaaðila hefur Umhverfisstofnun átt reglulegt samráð við fulltrúa frá stýrinefndum raf- og rafeindatækjaúrgangs og frá skilakerfinu til að fara yfir stöðu mála hjá þessum aðilum.

Ég hef upplýsingar um að samráðið hafi verið gagnlegt og komið málinu vel áleiðis. Fyrirhugað er að halda þessu samráði áfram þar til framkvæmdin er að fullu komin á og jafnvel eftir það svo að tryggja megi að innleiðingu kerfisins og þessarar nýju nálgunar verði fylgt eftir til frambúðar.

Reglugerð nr. 1104/2008, um raf- og rafeindatækjaúrgang, var sett um miðjan nóvember sl. og gjaldskrá um afnot skilakerfa af aðstöðu fyrir móttöku raf- og rafeindatækjaúrgangs frá heimilum var undirrituð í upphafi þessarar viku. Allt er þetta liður í að koma kerfinu á og gera það skilvirkt.

Innsöfnun og endurnýting á raftækjum hefur verið í gangi undanfarin missiri hjá stærstu sveitarfélögum landsins og það hefur ekki orðið neitt rof á því við gildistöku nýju lagaákvæðanna 1. janúar sl. Því hefur í sjálfu sér ekki skapast neinn umhverfisvandi eða millibilsástand vegna tafa á endanlegri innleiðingu ákvæða laganna. Útfærslan á þessari innsöfnun og endurnýtingu er sem sagt í endanlegri framkvæmd og ég geri ráð fyrir því að samráðið við þá sem ég nefndi áðan varðandi endanlega innleiðingu eigi eftir að skila okkur að lokum í góða höfn.

Varðandi hjólbarðana og endurvinnslu á þeim er það rétt sem hv. fyrirspyrjandi segir, það hafa verið ákveðnir erfiðleikar í framkvæmd lagaákvæða í sambandi við það en í samræmi við ákvæði í lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, er úrvinnslugjald lagt á hjólbarða sem fluttir eru til landsins hvort sem þeir eru nýir eða sólaðir, stakir eða sem hluti af ökutækjum. Úrvinnslusjóður annast þessa framkvæmd og er úrvinnslugjaldinu ætlað að standa undir kostnaði við meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöð, flutningi hans á söfnunarstöð til móttökustöðvar eða endurnýjunarstöðvar og þá er gjaldinu ætlað að standa undir endurnýtingu úrgangs og förgun eftir því sem við á.

Nú eru aðstæður á mörkuðum þannig í útlöndum að hjólbarðaefnið hefur fallið gríðarlega mikið í verði svo það er að verða mjög örðugt um vik fyrir okkur að koma þessum úrgangi í verð í útlöndum. Þess vegna hefur verið brugðið á það ráð sem fyrirspyrjandi nefndi, að kurla hjólbarðana og nota þá sem drenlögn á urðunarstöðum. Ég er sammála fyrirspyrjanda að það er ekki ákjósanleg aðferð og ég er að (Forseti hringir.) leita leiða til þess að geta gert eitthvað annað eða meira við þá. En það er líka mjög kostnaðarsamt að koma upp einhverjum iðnaði til þess að vinna endanlega (Forseti hringir.) nýtilegt efni úr hjólbörðum.