136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

staða á íbúðamarkaði.

349. mál
[15:10]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson spyr hvort ég hafi látið kanna hvernig best væri að bæta stöðuna á íbúðamarkaði á helstu þéttbýlissvæðum landsins. Ég get upplýst að Íbúðalánasjóður hefur með reglubundnum hætti fylgst með horfum á íbúðamarkaði í samræmi við lagaskyldu sína.

Í ljósi þeirrar stöðu sem komin var upp á íbúðamarkaði í upphafi árs 2008 óskaði stjórn sjóðsins eftir því að Íbúðalánasjóður hefði um það forgöngu að skoða stöðu og horfur á íbúðamarkaði á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum, Miðausturlandi og Norðurlandi. Þessar úttektir voru gerðar á síðasta ári nema á Norðurlandi en fyrirhugað er að slík könnun verði gerð þar á vormánuðum í ár. Greinargerðirnar eru yfirgripsmiklar og til þess fallnar að meta áhættu Íbúðalánasjóðs á einstökum markaðssvæðum.

Niðurstöður úttektanna hafa haft áhrif á regluverk sjóðsins, þ.e. aðferðir við að meta stöðu umsækjenda við afgreiðslu leiguíbúðalána. Einnig herti sjóðurinn reglur um eiginfjárframlag leigu- og byggingarfélaga. Sjóðurinn beitti sér einnig fyrir strangari reglum um leiguíbúðalán og er húsaleigusamningur nú skilyrði fyrir lánveitingu vegna leiguhúsnæðis. Markmiðið með breytingu á regluverki sjóðsins er að bregðast við og draga úr útlánahættu sjóðsins ásamt því að bregðast við fyrirsjáanlegu offramboði á fasteignamarkaði.

Sem dæmi má nefna voru 3.348 íbúðir fullbúnar á árinu 2007, sem eru tvöfalt fleiri íbúðir en voru byggðar á árinu 2001. Í árslok 2007 voru 6.242 íbúðir í byggingu, þ.e. tæplega 20 íbúðir á hverja 1.000 íbúa. Til samanburðar má geta þess að fullgerðar íbúðir hér á landi hafa að meðaltali verið 6,8 á hverja 1.000 íbúa en voru 10,4–10,7 íbúðir á hverja 1.000 íbúa á árabilinu 2003–2007. Leita verður aftur til 8. áratugar síðustu aldar til að sjá sambærilegar tölur.

Virðulegi forseti. Eftir þessa skoðun á íbúðamarkaðnum á stórhöfuðborgarsvæðinu er ljóst að stíga verður varlega til jarðar í frekari uppbyggingu, ekki síst þegar horft er til þess að önnur sveitarfélög á stórhöfuðborgarsvæðinu allt frá Árborg til Akraness hafa einnig verið í mikilli uppbyggingu og mikið af íbúðarhúsnæði er þar óselt. Velta á fasteignamarkaði hefur ekki verið minni í mörg ár sem endurspeglar vissulega að nýbyggingarnar seljast ekki. Það má e.t.v. segja að þetta séu afleiðingar þess að sveitarfélögin höfðu ekki nægilegt samráð sín í milli í skipulagsmálum en vonandi lærum við af reynslunni í þessu efni sem öðru.

Í stefnumótunarhópi í húsnæðismálum sem starfandi er á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins hefur m.a. verið rætt um nauðsyn þess að koma á upplýsingakerfi um úthlutun lóða sem gagnast gæti ríki, sveitarfélögum og byggingaraðilum. Ég fer ekki með nein ný sannindi hér, ég geri ráð fyrir að flestum sem hér sitja hafi verið þetta nokkuð ljóst. Við munum að sjálfsögðu fylgjast áfram náið með stöðu mála eins og lög gera ráð fyrir og í því sambandi get ég upplýst hér að til stendur að Íbúðalánasjóður uppfæri greinargerðirnar sem ég nefndi í upphafi og gefi út í einni skýrslu sem heimild um uppbyggingu á íbúðamarkaði á undanförnum árum þannig að til sé heildstætt yfirlit yfir eina mestu nýbyggingauppbyggingu sem farið hefur fram á Íslandi.