136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

staða á íbúðamarkaði.

349. mál
[15:15]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Ég vil láta þess getið varðandi þessa umræðu að ég lagði fram fyrirspurn á Alþingi og fékk skriflegt svar frá hæstv. samgönguráðherra um fjölda íbúðarhúsa í byggingu og tilbúinna íbúða í landinu. Ég fékk skriflegt svar rétt eftir áramótin um hvað til væri. Það er svo mikilvægt fyrir okkur að vita hver efnahagur okkar er varðandi byggingar sem eru í smíðum og byggingar sem eru tilbúnar.

Því miður er það ekki til í okkar landi að við höfum þann efnahagsreikning að geta vitað um fjölda íbúða á lager. Bankastofnanirnar vita það ekki, Íbúðalánasjóður veit það ekki, samgönguráðherra sem er með sveitarstjórnarmálin hefur ekki upplýsingar um það. Okkur vantar gjörsamlega þessar tiltæku upplýsingar og þess vegna er mjög mikilvægt, rétt eins og við fáum að sjá efnahagsreikning hinna nýju banka, að þessar upplýsingar og þessi gögn (Forseti hringir.) verði fáanleg og liggi fyrir.