136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

staða á íbúðamarkaði.

349. mál
[15:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Þetta snýr í rauninni ekki að þeim einstaklingi sem nú er ráðherra vegna þess að hann hefur tiltölulega nýverið hafið störf sem slíkur en ég fagna því að hæstv. ráðherra ætli að gera á þessu úttekt. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra er þetta lagaskylda undirstofnunar húsnæðismála eða félags- og tryggingamálaráðuneytisins og eitt af markmiðunum var að taka þetta út reglulega til þess að bregðast við offramboði. Ég held að við getum ekki komist að neinni annarri niðurstöðu en þeirri að yfirsýnin verður að vera hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu, hún getur ekki verið neins staðar annars staðar og menn geta ekki bent á neina aðra í því samhengi. Við getum ekki komist að neinni annarri niðurstöðu en að þar hafi félags- og tryggingamálaráðuneytið og fyrirrennarar hæstv. ráðherra gjörsamlega brugðist. Ástandið getur ekki orðið verra og er alveg augljóst að ekkert var gert til að bregðast við þessu, ekki neitt. Þvert á móti má færa full rök fyrir því að það sem stjórnvöld gerðu undir forustu fyrrverandi félags- og tryggingamálaráðherra miðaði allt að því að hella meiri olíu á eldinn og menn komast ekkert hjá því að sjá ástandið eins og það er.

Við sitjum nú uppi með þetta. Það er ljóst að menn hafa ekki nýtt undirstofnanir eða þau tæki sem þeir hafa til þess að gera áætlanir, til þess að meta stöðuna, og nú sitjum við uppi með mikið offramboð af nýbyggðu húsnæði, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, með öllum þeim vandræðum sem því fylgja. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um að það er afskaplega slæm staða og ég treysti því að hæstv. ráðherra — og veit það að á meðan hæstv. ráðherra er í embætti mun hann gera þær ráðstafanir sem mögulegar eru til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig þó svo að það vandamál muni koma upp aftur, því miður, en eftir mörg ár.