136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

könnun á greiðsluaðlögun fasteignaveðlána.

400. mál
[15:30]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Vegna orða hv. þm. Jóns Bjarnasonar um hvort rétt sé að draga til baka beiðni til ESA um að kanna lögmæti starfsemi Íbúðalánasjóðs og sérstaklega hvort þar sé einhver óeðlileg samkeppni við viðskiptabankana eða aðrar innlendar lánastofnanir, er mér ekki kunnugt um að nein umræða um það hafi verið innan núverandi ríkisstjórnar þótt augljóslega séu forsendur gerbreyttar frá því að bankarnir drógu í efa lögmæti Íbúðalánasjóðs fyrir hrunið. Ég tel að það sé í sjálfu sér ekki slæmt að fá úrskurð þannig að það liggi fyrir hver lagaramminn er og ef það kemur þá í ljós að lagaramminn er ekki fullnægjandi, verði honum breytt. Hins vegar held ég að það efist enginn um það núna að það var mikið gæfuskref að halda Íbúðalánasjóði og eiga hann að núna.

Ég get hins vegar ekki mikið sagt um fyrirspurn hv. þm. Jóns Bjarnasonar um útreikning á vísitölugrunninum enda er það á forræði Hagstofunnar sem ég hef ekki mikið yfir að segja.

Ég vil að endingu þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að koma fram með þessa hugmynd. Það er kannski ofmælt að segja að ég hafi fundið henni allt til foráttu, ég tel að hún geti átt rétt á sér í einhverjum tilfellum og er ekkert því til fyrirstöðu að menn semji um þetta. En ég tel að aðrar lausnir væru betri sem almenn lausn á þessum vanda og það verður meðal það sem kynnt verður þegar þær fyrirætlanir sem ég ræddi í fyrri ræðu minni koma fram í dagsljósið.