136. löggjafarþing — 114. fundur,  25. mars 2009.

aðför, nauðungarsala og gjaldþrotaskipti.

322. mál
[15:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Árna Páls Árnasonar, formanns allsherjarnefndar, að mikilvægt er að þetta mál fái fljóta afgreiðslu í þinginu enda eru í því ákvæði sem verulegu máli skipta fyrir tiltekinn hóp einstaklinga og heimila og þess vegna höfum við sjálfstæðismenn stutt afgreiðslu þess og meðferð í allsherjarnefnd af öllum mætti. Vissulega hefur verið farið efnislega vel yfir þetta mál í nefndinni og fjallað um þau álitamál sem þar komu upp, sem reyndar voru allmörg. Sum af þessum álitamálum voru leidd til lykta með breytingartillögum sem samstaða er um en önnur eru hugsanlega óleyst vegna þess að um er að ræða álitamál sem snúa að almennum reglum um fyrningar og fullnusturéttarfar sem þetta frumvarp hefur vissulega áhrif á.

Þau ákvæði sem kannski skipta mestu máli og valda því að ástæða er til að styðja framgang málsins að mínu mati eru auðvitað þau sem gera mönnum kleift að fresta fullnustuaðgerðum opinberra aðila fram yfir vonandi mestu erfiðleika og gefa mönnum lengri aðlögunartíma og svigrúm til að bregðast við því höggi sem hefur komið í efnahagsmálum þjóðarinnar og mörg heimili og fjölskyldur finna nú fyrir. Í ljósi þess skora ég á þingheim að veita þessu máli brautargengi og fyrir mitt leyti hef ég lagt til hliðar ýmis svona lagatæknileg álitamál sem snúa að einstökum greinum þarna í ljósi þess að við erum að tala um mjög sérstakar aðstæður og þetta frumvarp er sannarlega flutt og borið fram í þeim tilgangi að koma til móts við stóran hóp fólks sem á í erfiðleikum um þessar mundir.