136. löggjafarþing — 115. fundur,  25. mars 2009.

ábyrgðarmenn.

125. mál
[16:11]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir tveimur árum héldu Neytendasamtökin þing sitt og lögðu sérstaka áherslu á að þrjú mál gengju fram, þ.e. að sett yrðu lög um ábyrgðarmenn, lög um innheimtur og lög um greiðsluaðlögun. Með því máli sem er til umræðu í dag hillir undir að öll þessi þrjú mál hafi náð fram að ganga á örfáum mánuðum á Alþingi. Það eru að sjálfsögðu tímamót í baráttu fyrir réttlæti og neytendamálum og neytendavernd. Því ber að fagna þeim fullnaðarsigri sem ég veit að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og meðflutningsmenn vinna með þessu frumvarpi eftir níu tilraunir og baráttu fyrir því í hátt á annan áratug í þingsölum. Um leið hljóta þeir sem berjast fyrir bættum neytendarétti að fagna því alveg sérstaklega að þetta réttlætismál nái fram að ganga, enda er með því bæði ósiðlegt og annarlegt kerfi lagt af. Þetta eru tímamót sem við hljótum öll að fagna.