136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[18:10]
Horfa

Frsm. allshn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir framhaldsnefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., eða greiðsluaðlögunarfrumvarpinu.

Málinu var vísað til nefndarinnar að lokinni 2. umræðu til að nefndin gæti farið yfir álitamál sem upp hefðu komið og þá sérstaklega um þann möguleika að verkefni umsjónarmanns með greiðsluaðlögun yrðu falin sýslumönnum. Við meðferð málsins fyrir nefndinni komu fram upplýsingar um að þetta nýja hlutverk gæti skarast við innheimtuhlutverk sýslumanna og nauðsynlegt væri að hafa lengri tíma til að undirbúa þá breytingu þar sem slík breyting kallaði á tilfærslu verkefna milli sýslumannsembætta. Þetta gæti jafnframt kallað á frekari endurskoðun verkefna milli sýslumanna svo sem á þann veg að eitt embætti á höfuðborgarsvæðinu gæti sinnt þjónustuverkefnum gagnvart almenningi. Nefndin leggur því til þá breytingu á frumvarpinu að ráðherra verði heimilt að fela einum sýslumanni eða opinberri stofnun umsjón með nauðasamningi um greiðsluaðlögun í stað þess að vera það skylt eins og nefndin lagði til í fyrri breytingartillögu sinni.

Mikið ríður á að greiðsluaðlögunarferlið geti hafist sem allra fyrst. Það var því mat nefndarinnar að eðlilegt væri að lögmenn hafi þetta hlutverk með höndum fyrst um sinn eins og lagt er til í frumvarpinu. Þar er nú þegar fyrir hendi, í stétt lögmanna, reynsla af búskiptum og þrotameðferð, sem nýtist vel í störfum umsjónarmanns. Vegna sérstakra aðstæðna við þetta úrræði telur nefndin einnig rétt að leggja til að kostnaður umsjónarmanns sem greiðist úr ríkissjóði verði háður ákvörðun dómara, þó með þeim hætti að greiðsla fyrir umsjón með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar geti að hámarki orðið 200 þús. kr. Það er jafnframt tillaga nefndarinnar að sú greiðsla verði innt af hendi í einu lagi eftir að starfi umsjónarmanns lýkur til þess að þrýsta enn frekar á að umsjónarmenn vinni störf sín með hröðum og skilvirkum hætti og setja þannig hvata til þess að vel og hratt sé unnið. Viðmælendur umsjónarmanna eru auðvitað skuldarar sem eru í nokkuð erfiðri stöðu með sín fjármál og eiga erfitt með að sækja rétt sinn.

Nefndin fjallaði einnig um stöðu ábyrgðarmanna og tengsl greiðsluaðlögunarúrræðisins við ábyrgðarmannafrumvarpið sem hér er nú á lokastigum í meðförum Alþingis. Sérstaklega þurfti að taka tillit til þeirrar aðstöðu sem skapast ef skuld er felld niður á hendur aðalskuldara í greiðsluaðlögunarferli og þá hvort kröfuhafi ætti að geta beint kröfu um greiðslu heildarfjárhæðarinnar, upprunalegri kröfu, á hendur þriðja manni sem gengist hefði í ábyrgð. Það varð niðurstaða nefndarinnar að svo ætti ekki að vera. Ástæðan er eðli þriðjamannsábyrgða og forsendan sem liggur að baki þriðjamannsábyrgðum er sú að ábyrgðarmaður geti innt af hendi greiðslu en eigi síðan endurkröfu á hendur aðalskuldara. Ef hins vegar er búið að lækka kröfuna á hendur aðalskuldara með greiðsluaðlögun er þessi endurkröfumöguleiki ábyrgðarmanns því fallinn niður sem því nemur. Því er óhjákvæmilegt að áliti nefndarinnar að lækkun kröfu í greiðsluaðlögun hafi í för með sér samsvarandi lækkun heildarkröfu gagnvart ábyrgðarmanni. Þessi skilningur mun vera staðfestur í ábyrgðarmannafrumvarpinu en það er fjallað um það í greinargerð að nefndin deili þeim skilningi.

Þá leggur nefndin til að lögin öðlist gildi 1. apríl næstkomandi svo að nokkrir dagar gefist til undirbúnings áður en þetta úrræði taki gildi.

Full eining var um þessar breytingar í nefndinni og undir nefndarálitið rita auk mín hv. þingmenn Álfheiður Ingadóttir, Birgir Ármannsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Ólöf Nordal, Árni Þór Sigurðsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Siv Friðleifsdóttir og Jón Magnússon.