136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[18:31]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Hér erum við í 3. umr. um eitt af þeim málum sem skipta verulega miklu máli fyrir heimilin í landinu. Það hefur verið kallað eftir að það fái skjótan framgang í þinginu og við munum væntanlega afgreiða það núna. Málið hefur verið til umfjöllunar í hv. allsherjarnefnd um margra vikna skeið og ég tel að þær breytingar sem gerðar hafa verið á því séu allar til mikilla bóta. Ég vísa til þess að þetta er einungis hluti af þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur undirbúið vegna þeirrar miklu skuldabyrði sem hvílir á heimilum í landinu eftir 18 ára stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins. Ég minni á frumvarp sem varð að lögum í dag, um frestun á aðför, um gjaldþrot o.fl., lög sem einnig skipta verulega miklu máli.

Þessu máli sem við hér ræðum við 3. umr., um greiðsluaðlögun, er ætlað að aðstoða einstaklinga sem eiga í verulega miklum fjárhagslegum erfiðleikum. Eins og fram hefur komið er verið að taka inn í íslenskan rétt úrræði sem er að finna í norrænum rétti og einkum hefur verið litið til Noregs í því sambandi. Þessi greiðsluaðlögun til nauðasamninga, eins og úrræðið heitir, er til þess fallin að gera þeim sem skulda kleift að greiða af skuldum sínum miðað við greiðslugetu.

Ég vek sérstaklega athygli á því að í upphaflega frumvarpinu var að finna bráðabirgðaákvæði um greiðsluaðlögun fasteignaveðlána. Í því ákvæði var reiknað með svipuðu úrræði en þá aðeins fyrir þá sem væru með fasteignaveðlán sín í höndum hinna nýju ríkisbanka. Fram hefur komið að hv. allsherjarnefnd lagði til, og var það samþykkt eftir 2. umr. hér, að umrætt bráðabirgðaákvæði yrði fellt úr frumvarpinu en þess í stað mundi nefndin sjálf flytja frumvarp til greiðsluaðlögunar fasteignaveðlána og er nú verið að leggja lokahönd á það mál í nefndinni. Ég legg mikla áherslu á að þó að þessi mál beri hér að hvort á sínum tímanum og þetta mál til almennrar greiðsluaðlögunar sé nokkuð fyrr á ferðinni en hitt er um samhliða úrræði að ræða. Það er reiknað með því að ef einstaklingar þurfa á hvoru tveggja að halda, almennri greiðsluaðlögun og greiðsluaðlögun fasteignaveðlána, fari sami umsjónarmaður með bæði málin.

Í þessum málum er reiknað með að kostnaður falli að verulegu leyti á ríkissjóð. Það er reiknað með því að Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna verði efld og henni gert kleift að sinna aðdraganda og undirbúningi að greiðsluaðlöguninni og eins er hér gert ráð fyrir í sérstakri breytingartillögu að umsjónarmaður fái greidda þóknun úr ríkissjóði sem skal þó aldrei vera hærri en 200.000 kr. Er það gert, eins og hér hefur komið fram, með skírskotun til þess að undirbúningur málsins á að vera lengra kominn en almennt er þegar til nauðasamninga kemur vegna aðkomu Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.

Í nefndinni var milli 2. og 3. umr. mikið rætt um aðkomu sýslumanns eða sýslumannsembætta að þessari greiðsluaðlögun og þá varð ljóst, eins og hér hefur verið rakið, að slíkt þarfnast frekari undirbúnings. Eins og hér er gert ráð fyrir í breytingartillögu stendur eftir heimild til dómsmálaráðherra að fela sýslumönnum eða opinberri stofnun umsjón með nauðasamningi um greiðsluaðlögun. Á þessu, herra forseti, vildi ég vekja athygli.

Loks vil ég víkja hér svo sem eins og einu orði að því sem einnig hefur verið nokkuð rætt, þ.e. þriðjamannsábyrgðinni, og að niður falli sá hluti ábyrgðar sem felldur er niður með lækkun kröfu við greiðsluaðlögun. Hér hefur verið vikið að því að í frumvarpi um ábyrgðarmenn sem var til umræðu í nótt og atkvæðagreiðslu fyrr í dag eftir 2. umr. er gert ráð fyrir því að þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 60. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. skal nauðasamningur eða önnur eftirgjöf, þar með talinn nauðasamningur til greiðsluaðlögunar — eins og við erum hér að fjalla um — sem kveður á um lækkun kröfu á hendur lántaka hafa sömu áhrif til lækkunar kröfu á hendur ábyrgðarmanni. Þetta ákvæði skiptir verulega miklu máli þegar litið er til stöðu ábyrgðarmannsins sem eftir greiðsluaðlögun á auðvitað ekki fulla endurkröfu á skuldarann þar sem upphafleg skuld hefur verið lækkuð. Þetta er í samræmi við það sem gert er í þeim norræna rétti um greiðsluaðlögun sem ég vísaði til, þar er það skuldin sem slík sem fer í greiðsluaðlögun en ekki einstaklingurinn.

Herra forseti. Ég ítreka að þetta er eitt af þeim málum sem skiptir heimilin í landinu verulega miklu máli og hefur verið kallað eftir. Ég treysti því og þykist vita — við höfum fengið upplýsingar um það í hv. allsherjarnefnd — að Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna sé tilbúin til að aðstoða menn til þess að nýta sér þetta úrræði sem allra best.