136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[18:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mjög margt af því sem fram kom í ræðu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur er í góðu samræmi við það sem áður hefur komið fram, bæði í stuttri ræðu minni og í ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar, og lýsir því að ekki er um að ræða ágreining innan nefndarinnar um málið.

Hins vegar er eitt atriði í ræðu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur sem mér finnst óhjákvæmilegt að gera athugasemdir við og það var hennar pólitíska skot um að það ástand sem við byggjum við í dag væri því um að kenna að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið í 18 ár við völd í landinu. Ekki skal ég neita því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í 18 ár við völd í landinu, raunar allan tímann með öðrum, og ekki skal ég víkjast undan því að á þeim tíma hafa áreiðanlega oft verið teknar rangar ákvarðanir. Hins vegar verð ég að benda hv. þm. Álfheiði Ingadóttur á að við erum að ganga í gegnum dýpstu efnahagskreppu í hinum vestræna heimi í sennilega ríflega mannsaldur, við erum að tala um kreppu sem á sér helst samjöfnuð í kreppunni miklu á 4. áratugnum og þrátt fyrir að áhrif Sjálfstæðisflokksins séu mikil held ég að við getum ekki skýrt kreppu í Ungverjalandi, Lettlandi, löndum Evrópusambandsins, Bandaríkjunum eða Bretlandi með þeim. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn sé áhrifamikill held ég að hann hafi ekki orsakað kreppuna þar þannig að við verðum að horfa á málin í heildarsamhengi þegar við ræðum þetta.