136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[18:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Ég ætla ekkert að ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni, þegar við veltum fyrir okkur ábyrgð á efnahagskreppunni hér á landi og í hinum vestræna heimi getum við haft ýmsar skoðanir á því. Varðandi aðra þætti í þessu svari hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur get ég tekið undir að þetta er eitt af þeim málum sem raunverulega hefur þýðingu varðandi hagsmuni heimilanna í landinu og er þess vegna eitt af þeim málum sem í hugum allra þingmanna, held ég, þarf að setja í forgang. Auðvitað hefur mikil vinna verið unnin í nefndinni eins og við þekkjum sem þar sitjum og ég held að hún hafi verið mjög málefnaleg og góð og orðið til þess að færa frumvarpið til betri vegar og að frumvarpið sé betur til þess fallið að skila þeim árangri sem að er stefnt. Um það er enginn ágreiningur og ekki ágreiningur um að ástæða sé til að klára þetta eins fljótt og unnt er. Málið er sem sagt að komast á lokastig í þinginu og góð samstaða um það.

Það sem hins vegar hefur komið fram og er út af fyrir sig ástæðulaust að ræða við þessa umræðu sérstaklega er að það hefur dálítið þvælst fyrir þingstörfum undanfarna daga að ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki bara ákafir í að koma í gegn þeim málum sem lúta að hagsmunum heimilanna og fyrirtækjanna, heldur einnig mjög mörgum öðrum málum. Það hefur gert það að verkum að dagskrá þingsins hefur verið löng og þar hefur verið blandað saman brýnum hagsmunamálum og svo öðrum málum sem enginn skaði væri af að biðu fram yfir kosningar. Það hefur gert störfin hér í þinginu þyngri en ella.

Um þetta mál eru hins vegar allir sammála, (Forseti hringir.) því þarf að ljúka, það þarf að klára og gera að lögum sem allra fyrst.