136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[18:44]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Svo ég taki upp mál þar sem frá var horfið varðandi svör og andsvör hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni og hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, þá er þetta frumvarp ekki og á ekki að vera einhver viðbrögð við efnahagshruninu sem varð hér í október heldur er um að ræða sjálfsagða breytingu á lögum sem í raun hefði átt að eiga sér stað löngu fyrr.

Það var dálítið merkilegt að þetta sjálfsagða réttarúrræði, þ.e. breyting á lögum um gjaldþrotaskipti þannig að greiðsluaðlögun væri tekin upp, skyldi vera tekið upp sem hluti af aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar, eins og það var orðað, vegna þess að hér er einfaldlega um að ræða nauðsynlega breytingu og réttarbót sem fólk hefði átt að fá á Íslandi fyrir meira en áratug síðan.

Lög um greiðsluaðlögun voru sett á hinum Norðurlöndunum, að vísu síðast í Finnlandi, sem ég mun víkja að síðar í ræðu minni, en í Svíþjóð, Danmörku og síðar Noregi fyrir alla vega 15–20 árum síðan.

Frá þeim tíma hafa ýmis samtök, m.a. Neytendasamtökin, barist mjög ákveðið fyrir því að samþykkt yrðu lög um greiðsluaðlögun og hafa ályktað um það á þingum sínum ár eftir ár og skorað á Alþingi og ríkisstjórnir að hlutast til um að slík lög yrðu sett.

Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson minntist í umræðum hér fyrr í dag á að hann hefði lofað því á þingi Neytendasamtakanna fyrir tæpu ári síðan að gengið yrði frá nýrri löggjöf hvað varðar innheimtulög, lög um ábyrgðarmenn og greiðsluaðlögun og lýsti sig ánægðan með að innheimtulög hefðu tekið gildi. Lög um ábyrgðarmenn voru samþykkt fyrr í dag við 2. umr. og lög um greiðsluaðlögun eru hér til 3. umr.

Vissulega er kærkomið fyrir mig sem hef lengi verið í neytendabaráttunni að sjá að þessi hluti af löggjöfinni er svo gott sem að ná fram að ganga. Það er merkilegt skref í rétta átt. En ég ítreka að hér er ekki um að ræða og á ekki vera um að ræða hluta af einhverjum viðbrögðum við þeim vandamálum sem við er að glíma í íslensku efnahagslífi og ekki á að líta á þetta sem einhvern hluta af aðgerðapakka ríkisstjórnar. Hér er einfaldlega um réttmæta og eðlilega breytingu á löggjöf að ræða, eins og ég sagði áðan, sem hefði átt að koma fram fyrir rúmum áratug eða meira.

Við sem höfum um árabil barist fyrir því að fá þessa löggjöf samþykkta bentum á það í umræðunni að það skipti þá sem lentu í greiðsluerfiðleikum gríðarlega miklu máli að geta komist út úr þeim án þess að vera knúnir í gjaldþrot. Það hefði þýðingu fyrir hvern og einn að geta haldið lífi og störfum óhikað og óhindrað áfram þótt einhverja erfiðleika gæti borið að dyrum. Þá væri kostur að hafa greiðsluaðlögun þar sem í raun væri kveðið á um að viðkomandi greiddi það sem hann væri fær um að greiða en fengi annað fellt niður, því meira væri hvort sem ekki út úr viðkomandi að hafa.

Því var helst fundið þessu til foráttu á sínum tíma að þetta þýddi ekkert annað en að þarna mundu fjármunir tapast í stórum stíl. En reynslan hefur sýnt að svo er ekki. Engir fjármunir eru að tapast. Þar sem greiðsluaðlögun hefur verið í gildi um langa hríð hefur reynslan sýnt að engir fjármunir tapast. Þegar einstaklingar hafa hér verið knúnir í gjaldþrotameðferð hefur sjaldnast komið ein einasta króna úr þrotabúinu og jafnvel ekki dugað fyrir skiptakostnaði, hvað þá að fengist hafi upp í einhverjar kröfur kröfuhafa.

Þegar um greiðsluaðlögunaraðgerð er að ræða hafa menn aftur á móti möguleika á að kanna vel fjárhag skuldarans og þeir sem leita eftir greiðsluaðlögun eru þá þeir sem vilja koma nýrri skipan á fjármál sín. Mjög mikilvægt er að gefa þeim þann kost að geta notið þeirrar réttarverndar sem þessi lög, þegar þau hafa verið samþykkt frá hinu háa Alþingi, geta gefið. Reynslan á hinum Norðurlöndunum hefur sýnt að ákveðið hlutfall skulda hefur greiðst þar sem ekkert greiddist áður.

Mér þykir miður að ekki skyldi nást samstaða um það í allsherjarnefnd að víkka út gildissvið frumvarpsins. Ég hefði viljað og mælti með því við meðferð málsins í allsherjarnefnd að ekki væru settar allar þær takmarkanir sem kveðið er á um í a-lið 1. gr. frumvarpsins þar sem segir í 2. mgr., með leyfi forseta:

„Lögin ná ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hafa borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hafa lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum hans.“

Ég hefði viljað losna við þetta ákvæði þannig að greiðsluaðlögunin eða möguleikinn á að fara í greiðsluaðlögun hefði náð til allra. Ég lít þannig á að það verði að líta til þess að einyrkjar í atvinnurekstri eða þeir sem reka smáfyrirtæki þurfi á sams konar eða sambærilegri réttarvernd að halda og þeim möguleikum sem kveðið er á um í frumvarpinu og launþegar. Þess vegna hefði ég viljað og vildi ná fram þeirri breytingu að þetta tæki líka til þeirra sem hefðu rekið smáatvinnurekstur. Þetta hefði haft þýðingu t.d. fyrir bændur og marga fleiri.

Það skal tekið fram að þetta gildir nú samt sem áður. Þetta er með svipuðum hætti og lagt er til á hinum Norðurlöndunum. En ég taldi að aðstæður hér væru með þeim hætti að æskilegt væri að fara þá leið sem ég lýsti hér að gildissvið laganna væri víðtækara en hér um ræðir og lagt er til, þannig að atvinnurekendur væru ekki undanskildir og gætu leitað eftir greiðsluaðlögun líkt og aðrir einstaklingar.

Það liggur fyrir að hér er ekki um algjöra eftirgjöf skulda að ræða heldur ber því yfirvaldi sem fer ofan í málið að skoða hvaða möguleika viðkomandi skuldari á á því að greiða þær kröfur sem um ræðir. Þar koma til sérstök skilyrði þar sem um er að ræða að hafna ber kröfu um greiðsluaðlögun ef ákveðnar aðstæður eru fyrir hendi. Ekki er verið að mæla með því eða miða við það að fólk sem hefur hagað sér gáleysislega í fjármálum geti haldið áfram eða fái þetta réttarúrræði. Réttarúrræðið er fyrst og fremst miðað við þá sem hafa lent í ákveðnum ógöngum af ýmsum ástæðum, m.a. vegna veikinda eða atvinnumissis eða annars slíks. En hins vegar er sérstaklega tekið fram í d-lið, tölulið 2–6, að þetta gildi ekki fyrir þá sem hafa hagað sér gáleysislega í fjármálum. Þannig er tekið fram að skuldari sem hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað getur ekki leitað eftir þessu úrræði og heldur ekki ef hann hefur stofnað til skulda þegar hann var greinilega ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar.

Fleiri atriði koma til sem valda því að menn geta ekki hagað sér af ábyrgðarleysi í fjármálum og leitað síðan í það skjól sem þessi lög kveða á um. Hér er fyrst og fremst verið að tala um ákveðna réttarbót þannig að fólk sem lendir í erfiðleikum geti komist frá þeim og haldið áfram að starfa sem gildir borgarar í nútímasamfélagi.

Þetta hefur líka þýðingu hvað það varðar að koma í veg fyrir það sem iðulega hefur átt sér stað á undanförnum árum að fólk hefur verið með skattskuldir árum saman og þurft að flýja í skjól til að komast hjá því að allt sem það vann sér inn yrði hreinlega rifið í burtu og það hefði ekki framfærslueyri til þess að geta dregið fram lífið með sómasamlegum hætti. Það hefur verið vandamál sem hefur ekki verið leyst en hér er alla vega um að ræða löggjöf sem gæti komið til móts við og leyst þann vanda hjá öllu venjulegu fólki.

Ég tel að allsherjarnefnd hafi unnið mjög gott starf og gert nauðsynlegar lagfæringar og breytingar á því frumvarpi sem hér um ræðir, en ég get hér eingöngu um það sem ég er enn ósáttur við í frumvarpinu, þ.e. að ég hefði viljað að greiðsluaðlögunin næði einnig til einstaklinga sem hafa stundað atvinnurekstur og hefði fundist það eðlilegt sanngirnismál.

Þeirri spurningu hefur verið varpað fram hversu margir muni nýta sér það ákvæði sem hér um ræðir. Við rennum nokkuð blint í sjóinn með það en höfum þó ákveðnar vísbendingar frá reynslu Finna sem tóku þetta ákvæði upp síðar en aðrir. Þegar Finnar settu á reglur um greiðsluaðlögun gengu þeir í gegnum alvarlega stöðu í fjármálum heimilanna, þótt hún hafi ef til vill ekki verið jafnalvarleg og sú sem við erum í eftir efnahagshrun okkar. En þá var um að ræða alvarlega stöðu og ljóst að um mjög mikla erfiðleika var að ræða og mjög margir leituðu eftir þessu úrræði þannig að búast má við því að hér verði mjög svipaðir hlutir uppi á teningnum. Þegar þetta lagafrumvarp verður að lögum mun reyna mjög á ákvæði þess á fyrstu tímabilunum sem hér um ræðir og það skiptir gríðarlega miklu máli að kerfið sé tilbúið til að taka við því sem þarf og gera þá þær ráðstafanir.

Tími minn leyfir ekki lengri ræðu þannig að ég verð að koma að því í síðari ræðu varðandi þetta mál og víkja þá sérstaklega að breytingartillögunum og hlutverki umsjónarmanns og breytingu varðandi ábyrgðarmenn, sem ég (Forseti hringir.) verð nú að láta bíða.