136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[19:37]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu fyrirspurn vegna þess að í andsvari hv. þingmanns kristallast ákveðinn misskilningur sem ég hef orðið var við hjá nokkrum hv. þingmönnum. Málinu er þannig háttað að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir neinum aukaútgjöldum á árinu 2009. Fjárlög yfirstandandi árs koma þar af leiðandi ekkert við sögu þessa máls.

Fyrir árin 2010 og 2011 eru fjármunir til staðar í menntamálaráðuneytinu og hæstv. menntamálaráðherra gerði grein fyrir því í framsögu við 1. umr. að þannig væri málum háttað. Hins vegar er það rétt að fyrir árið 2012 þarf væntanlega að auka fjármuni og ákveða það á fjárlögum fyrir árið 2012. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég vonast nú til þess að þá verði aðstæður allar aðrar í þjóðarbúinu en nú eru. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Pétur Blöndal sé sammála mér um að allar líkur eru til þess að við munum þá geta veitt meira fjármagn í þetta. Verði það ekki er að sjálfsögðu alltaf möguleiki á að gera breytingar á þeim árum. En meginatriðið er að ekki er aukið fjármagn árið 2009 og fyrir hendi er fjármagn vegna frumvarpsins fyrir árið 2010 og 2011.