136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[19:40]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði í fyrra svari mínu er ekki gert ráð fyrir að auknum útgjöldum í ríkissjóði árin 2009, 2010 og 2011. Hins vegar verður það væntanlega árið 2012. Þá vona ég að forsendur verði aðrar. Verði það ekki er að sjálfsögðu eðlilegt að á þessu máli verði tekið eins og öllum öðrum þegar fjárlög fyrir árið 2012 verða afgreidd.

Einnig er mikilvægt í þessu sambandi að taka tillit til þess að fest var ákveðin tala í launum sem ekki var hækkuð. Miðað við ástandið í þjóðlífinu má því segja að hún hafi í raun verið lækkuð, þ.e. kaupgeta þessara launa er minni en áður. Það var auðvitað rætt sérstaklega hvort bæri að hækka launin eða ekki til samræmis. Niðurstaðan varð sú að eðlilegra væri að fjölga frekar, þannig að fleiri listamenn gætu bæst við eins og staðið hefur til í langan tíma.

Í þessu samhengi er kannski rétt að minna á að hugmyndin og þetta frumvarp varð til hjá fyrrverandi menntamálaráðherra, ágætri flokkssystur hv. þingmanns. Hér er í raun verið að halda áfram með mál sem var að mestu leyti fullunnið í tíð fyrrverandi menntamálaráðherra. Sú leið var ákveðin að fjölga í hópnum frekar en hækka launin og samtök listamanna eru sátt við það. Ég held að það sé afar mikilvægur áfangi. Þetta er vissulega hluti af viðleitni ríkisstjórnarinnar til að reyna að fjölga störfum og þarna er sem sagt verið að vonast til þess að menn geti fjölgað um 400 störf þegar þetta verður allt komið til framkvæmda árið 2012.