136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[19:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Þegar maður skoðar þetta frumvarp og heyrir í ráðherrum ríkisstjórnarinnar … Herra forseti. Það eru a.m.k. tveir fundir í gangi.

(Forseti (GuðbH): Ég vil biðja hv. þingmenn að gefa ræðumanni tækifæri til að flytja ræðu sína.)

Þegar maður les þetta frumvarp og niðurstöðu meiri hlutans og þegar maður heyrir hæstv. ráðherra tala, t.d. samgönguráðherra sem er að fara í miklar framkvæmdir, heilbrigðisráðherra sem er að hætta við niðurskurð, menntamálaráðherra sem er að halda áfram með tónlistarhús, þá virðist vera til nóg af peningum. Það er eins og ekkert hafi gerst. (Gripið fram í: Það þarf …) En það er eins og mig minni að í október hafi eitthvað gerst, þá hrundi bankakerfið og við erum núna undir leiðsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hallinn á þessu ári, herra forseti, er 150 milljarðar. Það er áætlun í gangi í fyrsta lagi um að skera niður um 7 milljarða í heilbrigðiskerfinu. Ég sé ekki að það gerist. Það er áætlun í gangi um að ná þessum halla niður á 2–3 árum sem þýðir gífurlegan niðurskurð í velferðarkerfinu. Það þarf að fækka opinberum starfsmönnum, segja þeim upp að hluta til sem ég vona að verði niðurstaðan eða lækka launin þeirra vegna þess að launin eru 70% af útgjöldum ríkissjóðs. Svo þurfa menn væntanlega að hækka skatta. Á sama tíma eru menn að gusa út peningum í tónlistarhús. Ég hef ekki einu sinni fengið að sjá hvað það kemur til með að kosta ríkissjóð á endanum allan tímann. Þetta er skuldbinding nákvæmlega eins og lántaka, á hverju einasta ári þarf ríkissjóður að borga. Það hefur hvergi komið fram í fjárlögum, það hefur hvergi komið fram. (Gripið fram í.) Mér er alveg sama, ég gagnrýndi það líka þá og ég gagnrýni það núna. Það hefur hvergi komið fram í fjárlögum og kemur hvergi fram að ríkissjóður þarf að borga eitthvað um 400 millj. á ári í 30–35 ár. (Gripið fram í: Þetta er búið að gagnrýna í mörg ár.) Þetta er í rauninni eins og lántaka, það þarf að borga af láninu á hverju ári og ætti að sjálfsögðu að fara undir fjárlög. Það virðist voða auðvelt að halda áfram með þetta. Það er bráðnauðsynlegt að eyða gjaldeyri í það að kaupa einhvern glervegg frá Kína, dýrum gjaldeyri, júan. Hann er mjög dýr eins og stendur og við eigum lítið af gjaldeyri og gengi krónunnar stendur illa akkúrat núna.

Síðan kemur heilbrigðisráðherra og hann er góður við alla. Hann kemur í sjónvarpið kvöld eftir kvöld og er svo góður við alla að það er alveg makalaust, opnar deildir hér og opnar deildir þar sem búið var að loka. Hann er svo góður að nú ætlar hann að lækka launin sín líka, eins og það lagi nú þennan gífurlega halla á ríkissjóði, ekki nokkurn skapaðan hlut, þetta er bara sýndarmennska. Og hvað stendur ekki líka í umsögn fjármálaráðuneytisins? (Gripið fram í: Ekki …) Vegna mikils halla á ríkissjóði mun þurfa að fjármagna útgjöldin með lántöku, sem segir mér að það verður enn þá meiri halli á ríkissjóði og endar sem skuldbindingar á börnin okkar. Hvert er fólk eiginlega að fara? Eru menn algerlega veruleikafirrtir eða hvað, herra forseti, bæði hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmenn sem um þetta hafa fjallað? Eru menn veruleikafirrtir? Grípa menn ekki að það er eitthvað að gerast? Það er atvinnuleysi í þjóðfélaginu o.s.frv. Væri ekki skynsamlegra t.d. að lengja í atvinnubótum, hækka þær eða gera eitthvað slíkt eða auka atvinnu, raunverulega atvinnu, atvinnusköpun? Nei, ekkert slíkt er gert. Ríkisstjórnin er öll meira og minna í því að eyða, hún er gjörsamlega óábyrg.

Hér er eitt lítið dæmi um það, lítið dæmi reyndar, að menn ætla sér að halda áfram eins og ekkert hafi gerst, herra forseti.