136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:04]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni þessar athugasemdir. Ég held að það sé alveg rétt sem hann segir að þetta snýst líka um ákveðna forgangsröðun, það er alveg rétt og það eru ekki peningar á hverju strái. Mitt mat er að peningar til menningarmála nýtist best í það að virkja fólkið í þeim geira og þannig vil ég þá nýta þær heimildir sem þó eru til staðar.

Það er líka hárrétt hjá hv. þingmanni að seinna meir á tímabilinu kann að koma til lántakna. Þessi lög liggja þá fyrir núna fram í tímann, til 2012. Þau þarf hugsanlega að endurskoða. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að þau verði endurskoðuð út frá því.

Ég tel að núna verðum við að horfa á hið erfiða atvinnuástand og hvað við getum gert í þessum skapandi greinum. Þar sem þessar heimildir eru fyrir hendi fór ég fram með þetta frumvarp af því að ég tel að þarna muni fjármagnið nýtast.