136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er eiginlega dálítið dapurlegt að heyra hæstv. ráðherra tala, hún talar um að það sé búið að setja 10 milljarða kr. í þetta tónlistarhús og ég veit ekkert um það. Það er svo merkilegt að þetta er allt sveipað einhverri dulúð. Er ríkisábyrgð á þessum 10 milljörðum? Var ríkisábyrgð á þeim? Voru einhverjir kröfuhafar sem hefðu hirt bygginguna? Ég veit ekkert um það. Er meira í þessu en bara tónlistarhús? Er það líka ráðstefnuhús? Ég veit ekkert um það.

Ráðherra hefur tekið ákvörðun um svona stórt dæmi fyrir hönd þjóðarinnar til allrar framtíðar í því árferði sem við lifum í núna þar sem við erum að berjast við að halda ríkisstarfsmönnum í vinnu, velta ekki of miklum skuldum á börnin okkar og skattleggja ekki fólk úr landi, unga fólkið úr landi. Á sama tíma taka menn svona ákvörðun um tónlistarhúsið. Ég veit ekkert meir og kannski getur hæstv. ráðherra upplýst mig um hvað allt dæmið kostar á endanum og hvort það hafi verið ríkisábyrgð á þessum 10 milljörðum sem komnir eru í þetta. Það er ekki búið að setja þetta í fjárlög. Kannski áttu bara kröfuhafar þetta. Verði þeim að góðu. Mér finnst þetta mjög stór ákvörðun.

Svo varðandi þessi listamannalaun, ég minni á að 300 manns misstu vinnuna um síðustu helgi. Á sama tíma eru aukin útgjöld til fólks sem er jú reyndar skapandi — kannski eru hinir ekki skapandi, ég veit það ekki — listamenn og eru með tekjur nú þegar, einhverjar, kannski miklu minni en verið hefur. Mér finnst þetta ábyrgðarhluti vegna þess að þetta er allt fjármagnað með lánum. Og þó að einhvers staðar hafi verið (Forseti hringir.) óhafnar fjárveitingar eru þær líka peningar.