136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:07]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er það rétt hjá hv. þingmanni að þetta eru líka peningar og þetta er spurning um forgangsröðun eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu við hv. þm. Einar Kristin Guðfinnsson.

Hvað varðar tónlistar- og ráðstefnuhúsið snýst sú ákvörðun í raun um að halda áfram eða standa við þær skuldbindingar sem ríki og borg voru búin að gangast í vegna þess húss til 35 ára. Ekkert umframfé er sett í það hús.

Ég tel að málið hafi verið rætt í fjárlaganefnd þingsins. Ég er sammála hv. þingmanni um að það á að ræða svona ákvarðanir í fjárlaganefnd. Ríkisendurskoðun skilaði að vísu því áliti sínu að sú ákvörðun að halda áfram með húsið hefði ekki þurft staðfestingu þingsins. Mér finnst það hins vegar eðlileg spurning hjá hv. þingmanni hvort ákvörðunin hefði ekki átt að þurfa staðfestingu þingsins. Mér finnst það til marks um að við eigum að velta fyrir okkur áfram hvernig fjárlögin eru unnin. Þar tel ég að mun betur megi vanda til verka. Hins vegar liggur fyrir að hér er hvorki verið að auka við skuldbindingar ríkis né borgar hvað varðar tónlistarhúsið.