136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:10]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. 33 ársverk á þremur árum, það er ekki kosningatékki mundi ég segja, a.m.k. ekki miðað við þá sem ég hef séð tíðkast hér í stjórnmálum. (Gripið fram í: Í vissum hópum.) Þetta eru 33 dagsverk, hv. þm. Pétur Blöndal.

Hvað varðar tónlistar- og ráðstefnuhúsið sagði ég það áðan og ég get sagt aftur að ekki er verið að auka við skuldbindingar (PHB: Og hver eru …?) ríkis sem er þetta 400 millj. kr. framlag á ári í 35 ár. Það er það sem — (Gripið fram í: 14 milljarðar?) 400 millj. kr. á ári í 35 ár. Svo borgar Reykjavíkurborg annað eins eða lítillega lægra hlutfall inn í þetta sameiginlega félag Austurhafnar þegar farið er af stað með þessa ákvörðun. Ég skal bara viðurkenna það fyrir hv. þingmanni að ég er ekki sérfræðingur í ríkisfjármálum. Ég er í raun og veru nýgræðingur á þinginu þegar farið er af stað með þetta í þessu félagi Austurhafnar, Reykjavíkurborgar og ríkis. Meðal margra spurninga sem ég spurði í ákvarðanatökuferlinu var: Hefur þetta í för með sér auknar skuldbindingar af hálfu ríkisins? Ég hef fengið þau svör að svo sé ekki og Ríkisendurskoðun byggir mat sitt á ákvarðanatökunni á að þarna séu ekki auknar skuldbindingar ríkisins í húsið. (PHB: Hvar er þetta í fjárlögum?) Málið hefur verið til umræðu í fjárlaganefnd, það er búið að fara mjög nákvæmlega yfir verkferlana. Þetta virðist samræmast þeim reglum sem hér hafa verið iðkaðar. Hvort það eigi að endurskoða þær reglur er síðan önnur spurning sem þingið þarf auðvitað að svara.