136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:12]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Hér fer fram athyglisverð umræða og vissulega er ástæða til að taka þátt í henni. Ég vil þakka bæði hv. þingmönnum sem hér hafa talað og hæstv. ráðherra fyrir þær hliðarbrautir og þau hliðarspor sem hér var farið inn á, eins og menningarsamninga og tónlistarhús, því allt tengist þetta með beinum og óbeinum hætti því viðfangsefni sem hér er verið að fjalla um, sem er frumvarp til laga um listamannalaun.

Ég lýsti skoðun minni við 1. umr. á þann veg að ég teldi annars vegar að viðbótin sem hér er verið að veita heimild til væri æskileg, þ.e. að ekki séu einungis rithöfundar og myndlistarmenn, tónlistarflytjendur og tónskáld á listamannalaunum heldur væri bætt við öðrum listamönnum, svo sem þeim sem fást við hönnun. Ég tel að þetta sé allt af hinu góða.

Viðfangsefnið er á hinn bóginn, og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson og hv. þm. Pétur H. Blöndal hafa réttilega vakið athygli á því, að hér er tjaldað til einnar nætur. Það er farið út í að breyta lögunum og bæta við hópi og nýta til þess þá sjóði sem eftir sátu frá fyrrverandi ríkisstjórn og fyrrverandi menntamálaráðherra til að greiða það sem þarf til að byrja með. Síðan er gert út á lán.

Þetta er það sem er gagnrýnivert. Ég styð hæstv. menntamálaráðherra fyllilega í því að gera þessar breytingar á grundvallarlögunum til að koma til móts við þá aðila sem á að bæta hér inn vegna þess að ég tel að það sé framtíðarverkefni og -viðfangsefni og muni í framtíðinni ef vel tekst til skapa atvinnu og það sem þeir fást við sem vinna á vettvangi þessara listamannalauna muni skapa gjaldeyri og þjóðartekjur.

En það verður eðlilega að gera þá kröfu, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal talar hér um, að við tryggjum þetta til langframa, að sjálfsögðu eins og hægt er með tekjum. Ég hefði talið eðlilegt að hæstv. menntamálaráðherra fengi svigrúm til að skjóta stoðum undir þessa starfsemi, ef svo mætti segja, innan þess ramma sem ríkisstjórnin hefur og Alþingi veitir.

En því miður er það ekki gert og menntamálaráðherra verður að treysta á guð og lukkuna og góða þingmenn að loknum kosningum til að þetta geti orðið að veruleika. (Gripið fram í: Skattgreiðendur framtíðarinnar.) Og skattgreiðendur framtíðarinnar. Þetta er að vísu kannski ekki stór baggi að bera eða binda en margt smátt gerir eitt stórt þegar kemur að því að leggja saman í blessuðum ríkissjóði.

En hvað um það. Ég hvet hæstv. menntamálaráðherra til að leggja nú á djúpið og ræða við hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, sem virðist hafa yfir að ráða alveg óskaplegum og óendanlegum fjársjóðum miðað við hvernig hæstv. forsætisráðherra talar að jafnaði, og finna lausn til að við finnum varanlegri útfærslu á tekjuöflun í þessu samhengi.

Þar er af mörgu að taka í ríkisrekstrinum. Ég þekki það eftir að hafa setið heil átta ár í fjárlaganefnd, m.a. á þeim tíma þegar ríkisreksturinn var allra verst settur 1991, 1992, 1993 þegar við sátum við að skera niður útgjöld í heilbrigðismálum og menntamálum og vorum, eins og sagt var þá, blóðug upp fyrir axlir í niðurskurði. Það var erfitt. Síðan bar stjórnarstefna stjórnarflokkanna, fyrst Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks og síðan Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þann ávöxt að þjóðartekjur og þjóðarframleiðsla fóru vaxandi og við gátum farið að gera mjög margt. Byggja upp þetta samfélag, innviði samfélagsins í heilbrigðismálum, menntamálum, samgöngumálum o.s.frv. Það var vegna þess að við tókum á málum þá, skárum niður og sköpuðum ríkissjóði þær aðstæður að hann væri rekinn með afgangi. Greiddum niður skuldir og lækkuðum þess vegna vaxtakostnað. Á þetta allt saman þarf að minnast og rifja upp vegna þess að það er ekki í fyrsta sinn nú sem taka hefur þurft á í ríkisfjármálum.

En hvað um það. Hér er eitt lítið og nett og gott lagafrumvarp sem ég get að þessu leyti stutt en hvet hæstv. menntamálaráðherra til að gera þá kröfu að svigrúm verði skapað innan ríkisútgjaldanna þannig að þetta komist þar fyrir.

Þá ætla ég að fara nokkrum orðum um þau tvö atriði önnur sem voru nefnd í tengslum við umræðu um þetta mál. Í fyrsta lagi menningarsamningana. Vegna þess að ég tel að öðrum þræði geti umræða um menningarsamningana sem hafa verið gerðir tengst þessu frumvarpi. Það er nú þannig að ég tel mér það til tekna að bera ábyrgð á því að menningarsamningar voru gerðir milli sveitarfélaganna og ríkisins.

Við, þáverandi menntamálaráðherra og sá sem hér stendur sem ráðherra ferðamála, gerðum að áhugamáli okkar að reyna að efla menningu úti um landið með því að gera samninga um samstarf á sviði menningarmála og veita styrki til að efla ferðaþjónustu og byggja upp menningartengda ferðaþjónustu. Þessir menningarsamningar voru byggðir á mikilli vinnu sem var unnin undir forustu þáverandi formanns Ferðamálaráðs, Tómasar Inga Olrichs, síðar menntamálaráðherra og nú sendiherra. Hann ásamt öðru góðu fólki vann mjög athyglisverða skýrslu og tillögur um menningartengda ferðaþjónustu. Þar voru m.a. gerðar margs konar tillögur og ég hvet hæstv. menntamálaráðherra til að kynna sér það merka rit, þá merku útgáfu, sem til er í samgönguráðuneytinu ef vel er leitað. Kannski hefur það verið flutt yfir í iðnaðarráðuneytið með ferðamálapakkanum. Alla vegana á ég þetta rit, ef allt um þrýtur, til að láta hæstv. menntamálaráðherra fá. (Gripið fram í.)

Ég hvet hana líka til að kynna sér það sem þarna var lagt til og unnið vegna þess að mjög vandlega var farið ofan í hvar möguleikar okkar Íslendinga til að efla menningu í þágu ferðaþjónustu og atvinnuuppbyggingar eru. Þess vegna voru menningarsamningarnir gerðir og ég tel að fjármagnið sem var sett í það hafi skilað sér með margvíslegum hætti í menningarlegu tilliti í þágu fólks um allt land til að auðga mannlíf og ekki síður til þess að efla tilteknar stofnanir. Litlar einingar sem sinna menningu hafa sprottið upp, söfn og ýmis konar setur sem mætti nefna og fjárlaganefndarmenn þekkja prýðilega vegna þess að forsvarsmenn þessara litlu eininga koma stundum á fund fjárlaganefndar til að gera grein fyrir rekstri sínum. Þannig að ég hvet hæstv. menntamálaráðherra núverandi til að fylgja í þau fótspor sem gengin voru af mikilli fyrirhyggju og reyna að tryggja að menningarsamningarnir verði ekki slegnir af. Vegna þess að ég tel að þeir séu fjárfesting til góðs.

Þá kem ég að hinu málinu sem var nefnt. Ég tel mér skylt að koma inn í umræðuna eftir að hafa hlýtt á það sem fór hér fram vegna þess að ég var einn þeirra ráðherra sem skrifuðu undir samning um tónlistar- og ráðstefnuhúsið. Ekki má gleyma því og alveg nauðsynlegt er að hæstv. núverandi menntamálaráðherra sé vel upplýstur, sem ég veit að hún er um þessi mál öll. Ákvörðun var tekin í bullandi góðæri eftir langvarandi stjórnarþátttöku Sjálfstæðisflokksins um að fara í þessa uppbyggingu við Austurhöfn, þessa bjartsýnu framkvæmd að byggja upp ráðstefnu- og tónlistarhús til að efla menningu á Íslandi og styrkja ferðaþjónustu á Íslandi. Það var tilgangurinn.

Við töldum að þetta væri skynsamleg ákvörðun. En auðvitað hefur ýmislegt breyst síðan, því miður. Við lentum í þessu veraldarbankahruni sem skellur yfir okkur eins og aðra og við þurfum auðvitað að takast á við það verkefni og ljúka byggingu ráðstefnu- og tónlistarhússins hér við Austurhöfn þannig að okkur verði til vegsauka og það verði að veruleika sem að var stefnt að þarna verði iðandi menningar- og listamiðstöð og góð aðstaða til að taka á móti ferðamönnum, halda ráðstefnur o.s.frv. Við megum ekki missa móðinn þótt á móti blási. Það eru mín skilaboð til hv. þingmanna hvað þetta varðar.

Vissulega eru það miklir fjármunir sem ríkissjóður og borgin ætla sér að leggja í rekstur og endurgreiðslu á kostnaði við menningar- og tónlistarhúsið. En ég er alveg sannfærður um að þegar fram líða stundir verður þakkað fyrir það að menn skyldu hafa kjark til að fara í þá framkvæmd.

Menn mega ekki gleyma því heldur að farið var út í þetta á þeim nótum að efnt var til samkeppni og því átti ekki að koma neinum manni á óvart á Íslandi að þetta stæði til. Margsinnis hefur verið farið yfir það og það kann vel að vera og alveg hárrétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að betur hefði þurft að búa um fjáröflunina hvað varðar ríkissjóð en var gert með 6. gr. heimild. En hins vegar er alveg ljóst að Ríkisendurskoðun hefur úrskurðað að það hafi dugað. En ég er alveg sammála hv. þingmanni, auðvitað áttum við að fjalla um það hér og fara nánar ofan í það með hvaða hætti við ætluðum að greiða þetta. En ríkissjóður og borgarsjóður hafa tekið þetta verkefni að sér og við eigum að sjálfsögðu að finna bestu og ódýrustu lausnina til að ljúka þessu. Í hverra þágu? Í þágu barnanna okkar og þeirra sem hér eiga eftir búa og byggja þetta land.