136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:29]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Listamannalaun, heiðurslaun listamanna, Þjóðarbókhlaðan, bygging hennar tók 10 ár, eða tónlistarhús sem hefur komið inn í umræðuna, eru allt hlutir sem við höfum ekki efni á eins og stendur. Þetta er tákn um bruðl sem við verðum að hætta. Að bæta við peningum í listamannalaun, klára tónlistarhúsið og eyða í það 14–20 milljörðum, eru hlutir sem ekki ganga upp við þær aðstæður sem við búum við í dag. Ég hef hvatt til þess áður úr þessu ræðupúlti að við frestum þessu og notum peningana í alvöruatvinnuuppbyggingu sem skapar gjaldeyristekjur og fólki atvinnu. Vissulega fá einhverjir störf við að byggja tónlistarhúsið en þetta er af þeim meiði að við verðum að byrja á að spara peninga. Þetta er eins og með utanríkisþjónustuna og ýmsa þætti í samfélagi okkar sem við höfum ekki efni á að setja peninga í í dag. Við verðum að horfast í augu við það að ástandið í íslensku þjóðfélagi er mjög alvarlegt. 40–50% af fjölskyldum í landinu eru að fara í þrot eða orðnar eignalausar, 70% af fyrirtækjunum í landinu eru í miklum erfiðleikum, flest tæknilega gjaldþrota. Við getum ekki verið að setja peninga í umrædda hluti, því er nú verr.

Auðvitað væri gaman að eiga fallegt og flott tónlistarhús. Auðvitað væri gott að geta styrkt listamenn en aðstæður leyfa það ekki nú um stundir. Að setja upphæðir í tónlistarhúsið eins og ég nefndi áðan, 14–20 milljarða, gengur ekki. Ég ætla rétt að vona að núverandi stjórnvöld sjái sóma sinn í því að hætta þessu bruðli og reyni að gera þetta á þann hátt að þessar eignir eyðileggist ekki. Það getur vel verið að setja þurfi nokkrar milljónir í að tryggja það að eignir eyðileggist ekki en ekki er hægt að setja slíkar upphæðir á næstu árum í þetta eins og fyrirhugað er. Ég á þá sérstaklega við tónlistarhúsið. Við getum heldur ekki aukið við peninga í listamannalaun eða annað eins og ég nefndi áðan. Í þjóðfélaginu er víða verið að bruðla, víða er verið að setja peninga í eitthvað sem við höfum ekki efni á að gera. Við þurfum að einhenda okkur í að reyna að skapa atvinnu, setja peninga í gjaldeyrisöflun og atvinnu fyrir fólk sem skilar arði.