136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Eftir síðustu ræðu þarf ég varla að tala en hún var eins og töluð út úr mínu hjarta.

Þannig var að hæstv. ráðherra sagði: Það er gaman að hafa svona tónlist fyrir börnin okkar. En það er verra ef börnin okkar búa ekki lengur á Íslandi. (Gripið fram í: Og ef börnin fara ekki að koma.) Það er verra ef foreldrar þeirra eru fluttir til útlanda vegna þess að búið er að skerða velferðarkerfið svo mikið eða hækka skatta svo mikið að fólk telur sér ekki fært að búa lengur á Íslandi.

Þetta er alvörumál, herra forseti. Þetta er ekki gamanmál. Þótt búið sé að setja 10 milljarða í eitthvert hús á að henda 14 milljörðum í þetta eins og hér var nefnt. Húsið kostar í heildina 25 milljarða fyrir ríki og borg, þá er ég að tala um báða aðila. Þetta er að sjálfsögðu allt borgað af Reykvíkingum eða Íslendingum. Þetta er alvörumál. Á sama tíma er fjöldi fyrirtækja að hætta við að byggja hús sem þau ætluðu að byggja, um alla borg standa hálfkláruð íbúðarhús. Á sama tíma eru einstaklingar að hætta við að byggja húsin sín, íbúðina sína, verða að hætta við það af því að þeir hafa ekki skattgreiðendur framtíðarinnar til að ávísa á. Þess vegna hætta þeir við.

Ég vil benda á að lánshæfismat Íslands er orðið töluvert laskað og menn ætla að skuldbinda það enn frekar í þessari stöðu með tónlistarhúsið, með listamannalaunin þótt lítið sé, allt eru þetta smáteikn um það að menn eru bara ábyrgðarlausir. Hæstv. ríkisstjórn er ábyrgðarlaus. Á sama tíma og sagt var að skera ætti niður um 7 milljarða í heilbrigðiskerfinu, þá er ekkert gert, bakkað er út úr því sem búið var að gera. Menn eru hættir við að spara það sem er búið að ákveða. Menn eru góðir alla daga við alla og á endanum þýðir þetta að hækka þarf skatta, skerða velferðarkerfið mjög verulega sem hvort tveggja getur leitt til þess að aðalauðlind þjóðarinnar, mannauðurinn, unga fólkið, fari úr landi. Það er auðvitað það alskaðlegasta sem gæti gerst. Þess vegna þurfum við að sýna aðhald, fyrirhyggju og sparsemi og ráðdeild alls staðar, líka í tónlistarhúsinu, líka í listamannalaunum. Það er allt í lagi borga listamannalaun ef menn eiga fyrir því en að borga listamannalaun og skrifa þau á bakið á börnunum okkar, sem hugsanlega verða þá komin til Svíþjóðar eða Noregs, finnst mér ekki vera ábyrgðarfullt.

Í rauninni er staðan nokkuð góð ef allir sýna ráðdeild, sparsemi og hagsýni og passa sig á útgjöldunum. Þá getum við hugsanlega ráðið við þetta, sérstaklega ef snillingarnir sem semja við Breta um Icesave-reikningana ná þokkalegum samningum. (Gripið fram í: Eða semja ekki.) Eða semja ekki. Þá eru öll teikn um að það fari að birta til. En þá má ríkissjóður heldur ekki hegða sér ógætilega því hann getur svo sett þetta allt á hvolf. Það er nefnilega þannig. Þess vegna finnst mér þetta tónlistarhús og listamannalaunin og allt það sem verið er að gera merki um ábyrgðarleysi, herra forseti. Ef menn sýna ábyrgð þá er þetta í lagi, þá er þetta vinnanlegt.

Ég hef ákveðna sýn á framtíðina sem er alls ekki slæm en hún byggir líka á því að menn séu ráðdeildarsamir, sparsamir og gætnir í fjárfestingum og átti sig nákvæmlega á hvað þeir eru að gera í hverju einasta skrefi. (Gripið fram í: Og nýti möguleikana.) Já, og nýti alla möguleika. Það er allt í lagi að ríkið fjárfesti í fyrirtækjum og stuðli að atvinnustarfsemi sem skapar störf, t.d. álverum, hvalveiðum eða einhverju slíku. Það skapar störf. Það byggir síðan upp störf í kringum sig eða eitthvað annað sem hægt er að nota orkuna í, t.d. gagnageymslur eða eitthvað slíkt. Ég væri til í að setja peningana í það sem skapar störf til framtíðar sem síðan gefa af sér önnur störf. Það er allt annar handleggur. En ég sé ekki tónlistarhúsið skapa mörg störf til framleiðslu á Íslandi eða hagnað inn í þjóðarbúið. Við skattleggjum ekki tónlistarhúsið mjög mikið í framtíðinni. Ég sé það ekki og ég hef hvergi nokkurs staðar séð reksturinn á því. (Gripið fram í: Reksturinn ...) Ætli það ekki, ætli hann verði ekki dýr, það vantar líka inn í dæmið. Hver á að borga það? Einnig vantar börnin okkar sem vonandi búa á Íslandi.