136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:45]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Það er sorglegt að fólk skuli verja tónlistarhúsið og að hæstv. menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir skuli treysta sér til að verja það að 200–300 störf skapist við að byggja — (Menntmrh.: 600.) þó að þau væru 600 — þetta tónlistarhús á sama tíma og hægt væri að vera með mörg störf í alls konar uppbyggingu bæði til sjávar og sveita sem mundi skila okkur gjaldeyristekjum og alvöruatvinnu til framtíðar litið. Þegar þetta ágæta tónlistarhús verður fullbyggt kostar sennilega 2–3 milljarða á hverju ári að reka það. Það verða sáralitlar eða engar tekjur á móti og ég efast um að stór hópur Íslendinga hafi efni á að njóta tónlistar í þessu húsi fyrstu árin, á meðan atvinnuleysið er jafnmikið og það er í dag. Það á væntanlega eftir að aukast, a.m.k. á næsta ári, og síðan koma aðrir þættir til, að Íslendingar flytji í burtu, hér fækki fólki og annað út af atvinnuástandinu og hversu dýrt verður að búa á Íslandi næstu árin.

Það er sorglegt að horfa upp á þetta og að þingmenn og ráðherrar Vinstri grænna skuli treysta sér til að setja peninga í svona sem er raunverulega ekkert annað en montverkefni meðan fullt er af fátæku fólki sem hefur varla til hnífs og skeiðar.

Til að lifa og geta haldið velferðinni gangandi þurfum við að afla tekna og skapa fólki atvinnu. Þetta vita allir. Hvort sem við settum þá peninga sem fara í tónlistarhús í graskögglaverksmiðju eða áburðarverksmiðju til að spara gjaldeyri, eða kræklingarækt eða eitthvað sem vantar peninga í til að geta skapað gjaldeyri og tryggt atvinnu til framtíðar væri þeim betur varið í ýmiss konar svona starfsemi, þess vegna niðurgreiðslu á rafmagni til garðyrkjubænda. Það eru þessir þættir sem ég hef aldrei skilið hjá vinstri grænum, hvernig þeir geta varið það að vilja gera allt fyrir alla í velferðarkerfinu en gera aldrei ráð fyrir að það þurfi að afla neinna tekna á móti, halda að það verði hægt að gera allt fyrir alla án þess að afla tekna. Hlutirnir ganga ekki þannig fyrir sig. Ég skil ekki hvernig hægt er að hafna því að nýta orkuauðlindir landsins okkar, fallvötnin, orkuna í iðrum jarðar eða fiskinn í sjónum og ýmislegt annað sem við getum nýtt okkur, til að skapa atvinnu og gjaldeyristekjur.

Ég sagði um daginn í ræðu að þessi ríkisstjórn væri hálfgerð hundasúruríkisstjórn sem ætlaði ekki að hreyfa við neinum steinum og að ekki mætti raska neinu í landinu en allir ættu að lifa á því að tína hundasúrur eða eitthvað álíka upp til fjalla en ekki að fara í alvöruatvinnustarfsemi af því að hún gæti haft áhrif á umhverfi okkar.

Það er líka sorglegt að horfa upp á það að hér kemur fyrrverandi forseti Alþingis og fyrrverandi samgönguráðherra, hv. þm. Sturla Böðvarsson, ber blak af og reynir að verja gjörðir Sjálfstæðisflokksins í gegnum tíðina. Síðustu 18 ár hafa sjálfstæðismenn stjórnað hér, reyndar í 12 ár ásamt Framsóknarflokknum og nú síðustu 18–19 mánuði með Samfylkingunni. (StB: Gleymdu ekki Alþýðuflokknum.) Ha? (Gripið fram í.) Reyndar með Alþýðuflokknum frá 1991–1995 svo öllu sé rétt til haga haldið, og niðurstaðan er sú að hér er Ísland verr statt en nokkurn tíma áður. Við erum búin að stúta efnahagskerfinu á Íslandi og setja skuldir á íslenskan almenning til langs tíma, og langt inn í framtíðina munu hér verða verri lífskjör en annars staðar á Norðurlöndunum, verri lífskjör en víða í heiminum. Hér mun fólk þurfa að borga miklu meira fyrir alla þjónustu, borga hærri skatta og annað í þeim dúr þannig að velferðarkerfið verður dýrara en nokkurs staðar annars staðar og afkoma fólks verður verri en hjá flestum Evrópuþjóðum. Þrátt fyrir allt og þrátt fyrir bankakreppur í öðrum löndum er þetta út af því að efnahagsstjórnunin hjá sjálfstæðismönnum og þeirra meðreiðarsveinum, hverjir sem það hafa verið, var ekki betri en raun ber vitni.

Hér sváfu menn á vaktinni, hér sváfu menn við stýrið og stýrðu beint í strand. Það er niðurstaðan. Í dag er ekki hægt að tala um það, hv. þm. Sturla Böðvarsson, að það hafi verið kreppa erlendis. Það var kreppa hér, menn sáu hana ekki fyrir og tóku ekki mark á upplýsingum sem þeir höfðu um stöðu mála, stöðu bankanna okkar og annað í þeim dúr. Þeir hlustuðu ekki á einn eða neinn og ef þeir fengu einhverjar upplýsingar var skýrslunum venjulegast stungið undir stól og ekkert gert með þær. Þetta er það sem við stöndum frammi fyrir og sjálfstæðismenn eiga að skammast sín fyrir það hvernig þeir skilja við þjóðina núna og hvernig þeir hafa valdið því að ástandið hjá þjóðinni er jafnslæmt og raun ber vitni.

Við horfum líka upp á nýja ríkisstjórn núna, Vinstri grænir og Samfylkingin eru í ríkisstjórn með stuðningi framsóknarmanna. Við sjáum reyndar ekki miklar breytingar, satt best að segja engar. Það er allt gert á hraða snigilsins og það skeður lítið. Fjölskyldurnar í landinu finna ekki neinn mun á því hvort íhaldið er hér við stjórn eða vinstri grænir. Þeir sem reka fyrirtækin finna ekki heldur fyrir því að það sé neinn munur. Það getur vel verið eitthvað í pípunum og eitthvað á leiðinni en við höfum ekki orðið vör við það og fólkið verður ekkert vart við það enn þá. (Gripið fram í.) Og það er ein vika eða 10 dagar þangað til þing verður sent heim þannig að maður sér ekki alveg að þessi fjórflokkur sem hefur ráðið ríkjum hjá þjóðinni síðustu 100 árin, liggur við að sé hægt að segja, standi sig. Ég hvet kjósendur til að hafna þessum fjórflokki og gefa öðrum tækifæri til að koma að stjórnun mála.

Ég segi, eins og ég hef oft sagt áður, að flokkar eiga að vera fyrir fólk en ekki öfugt.