136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur átt sér stað um hið merka frumvarp um listamannalaun. Margt hefur borið á góma eins og eðlilegt er þegar slík mál eru til umræðu og ég þakka sérstaklega þá miklu þátttöku sem hér hefur orðið í umræðunni. Hún hefur verið upplýsandi, m.a. hefur komið fram að þær miklu tölur sem sumir hv. þingmenn nefndu í upphafi eru ekki eins stórar og menn óttuðust heldur er hér um hugsanlegar 17 millj. að ræða árið 2012 sem gæti komið til að menn þyrftu að velta fyrir sér við fjárlagagerð þess árs.

Þó að sumir hv. þingmenn hafi talað eins og þetta væru fjármunir sem færu bara út og ekkert skilaði sér til baka má ekki gleyma því að menningarstarfsemi aflar einnig tekna. Þeir fjármunir sem hér fara út munu að sjálfsögðu skila sér til baka í ríkissjóð eftir ýmsum leiðum.

Ég vildi bara rétt minnast á nokkur mál. Það var athyglisvert þegar hv. þm. Sturla Böðvarsson rifjaði upp veru sína í fjárlaganefnd um átta ára skeið og stór hluti þess tímabils var við miklar þrengingar. Ég lifði önnur átta ár í þeirri ágætu nefnd en það var við allt aðrar aðstæður, það var tímabil sem menn kölluðu góðæri eða þenslu. Það hefur að vísu komið í ljós að það var kannski ekki full innstæða fyrir öllu þessu mikla fjármagni, þetta var mikið blásið út og var kannski að mestu leyti blaðra. Það hefði, held ég, verið árangursríkara ef stundum hefði verið hlustað á okkur sem mynduðum minni hluta fjárlaganefndar og hvöttum til meira aðhalds þó að töluvert væri af fjármagninu. Menn blésu ýmislegt út sem er erfiðara að snúa til baka með en ef menn hefðu örlítið reynt að vanda sig. Þegar mikið innstreymi er af fjármagni er vandinn að þá gleyma menn sér og fara að nota fjármunina í ýmsa hluti sem menn mundu t.d. ekki gera í dag.

Ég held að það sem mest var rætt í umræðunni svona til hliðar, þ.e. hið merka menningarhús, sé dæmi um það þegar menn voru næstum búnir að gleyma sér algerlega. Ég held að það sé hárrétt bæði hjá hv. þm. Pétri Blöndal og hv. þm. Sturlu Böðvarssyni að vinnubrögðin öll í kringum það — nú er ég ekki að ræða framkvæmdina sem slíka sem er út af fyrir sig sérumræða. Það er eiginlega skelfilegt að niðurstaðan eftir mikla skoðun á þeim, þ.e. með 6. gr. heimild, skuli vera að þau standist fjárreiðulögin. Það segir okkur fyrst og fremst að við þurfum að breyta þeim lögum. Auðvitað gengur ekki að slík framkvæmd, sama hversu góð eða slæm hún er, skuli ekki fá fulla umræðu í þingsal. Skuldbinding við ríkissjóð er í slíkum upphæðum að það er eiginlega fáránlegt að umræðan skuli ekki eiga sér stað svo það sé hægt að skiptast á skoðunum.

Mér er mjög minnisstætt að andstaðan við að þetta væri afgreitt með þeim hætti sem var gert var nokkuð yfir flokkslínur. Andstaðan í stjórnarflokkunum þáverandi var þó ekki nægjanleg til að stoppa málið og vil ég þá minna á að m.a. talsmaður Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd hafði miklar efasemdir og athugasemdir við það sem gert var, en því miður hafði hann ekki stuðning í sínum flokki til að það mál fengi, að því er okkur mörgum fannst, eðlilega þinglega meðferð. Þess vegna hefur m.a. verið staðið að því máli með þeim hætti sem gert var.

Nóg um það, hér var einnig rætt um afar mikilvæga samninga sem eru menningarsamningar. Ég held að þeir séu að mörgu leyti andstaðan við tónlistarhúsið. Við munum kannski mörg eftir því hvernig þetta mál tengdist þessu, þ.e. hugmyndum um að byggja menningarhús vítt og breitt um landið. Sem betur fer, vil ég segja, höfðu íbúar svæðanna vit fyrir stjórnvöldum í því efni og það varð eiginlega uppsteytur mjög víða við þeirri hugmynd að reisa eitt stórt hús, menningarhús, sem átti að bjarga að því er mörgum fannst allri menningu. Það hefur komið fram í umræðunni og ég tek undir það að menningin snýst miklu frekar um fólkið sem stundar menninguna en það að byggja eitthvað úr steinsteypu. Þess vegna var þessu m.a. breytt þannig að mjög víða um land hefur verið sköpuð aðstaða á miklu ódýrari hátt, á fjölbreyttari hátt og víðar en ætlað var með því að gera upp gömul hús, nýta það sem var fyrir og þannig fara miklum mun betur með það fjármagn sem til notkunar var af þessu tilefni.

Menningarsamningarnir hafa síðan mjög víða um land gert mjög góða hluti og ég tek undir það sem hér hefur komið fram í máli nokkurra hv. þingmanna að það er afar mikilvægt að þeir séu varðir í því erfiða ástandi sem nú er og er því miður fram undan.

Herra forseti. Að lokum ítreka ég þakkir mínar til þeirra hv. þingmanna sem hér hafa tekið þátt í umræðunni og vil einnig nota tækifærið og þakka ágætt samstarf í menntamálanefnd. Ég geri ráð fyrir að sú nefnd hafi lokið störfum á þessu þingi. Þetta var síðasta málið sem við afgreiddum út úr nefndinni. Samstarfið í nefndinni hefur verið afar gott og árangursríkt og ég þakka það sérstaklega.