136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[21:02]
Horfa

Frsm. samgn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um Bjargráðasjóð. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölmarga gesti.

Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði ný heildarlög um Bjargráðasjóð. Lagt er til að Bjargráðasjóður starfi áfram í breyttri mynd, breyting sú sem lögð er til snýr að því að sveitarfélögin hætti aðkomu að sjóðunum og fái greiddan út eignarhlut sinn.

Breyting þessi byggist meðal annars á því að hlutverk sjóðsins hefur breyst verulega frá stofnun hans, fjölmörg úrræði sem ekki voru til staðar við setningu upphaflegra laga um Bjargráðasjóð eru nú fyrir hendi til að bæta áföll sem einstök landsvæði kunna að verða fyrir. Bent hefur verið á að verkefni sjóðsins sé ekki tengt sveitarstjórnarmálum heldur atvinnumálum og því sé eðlilegt að ráðuneyti landbúnaðarmála fari með málefni sjóðsins í samvinnu við Bændasamtökin.

Unnið hefur verið að úttekt og endurmati á verkefnum og framtíðarhlutverki sjóðsins í nokkurn tíma en sú vinna skilar sér í þessu frumvarpi. Niðurstaðan er að hætt verði lögskyldri aðild sveitarfélaganna að sjóðnum og miðar frumvarp þetta að því að breyta reglum sjóðsins á þann veg. Gert er ráð fyrir að hlutur sveitarfélaganna í sjóðnum renni til Sambands íslenskra sveitarfélaga og að sú stjórn sjóðsins sem skipuð var 29. desember 2006 starfi þar til uppgjöri á hlut sveitarfélaganna hefur verið lokið.

Loks eru í frumvarpinu ákvæði sem heimila að Bjargráðasjóður geti veitt bændum stuðning til að draga úr hættu á uppskerubresti sem gæti leitt af sér óæskilegan samdrátt í búvöruframleiðslu. Vegna hins alvarlega ástands sem uppi er í íslensku efnahagslífi eru blikur á lofti varðandi áburðarkaup bænda og líkur á því að hækkandi áburðarverð og lausafjárskortur leiði til þess að fjöldi bænda geti ekki fjármagnað áburðarkaup.

Á fundum sínum ræddi nefndin skipulag sjóðsins og áhrif þessara breytinga á starfsemi hans og framtíðarhorfur, telur nefndin frumvarpið farsæla lausn á málefnum Bjargráðasjóðs. Samstaða hefur náðst milli helstu hagsmunaaðila um þá niðurstöðu að sveitarfélögin hætti þátttöku í sjóðnum. Einnig er samstaða um þá ráðstöfun að málefni sjóðsins flytjist í kjölfar þessara breytinga frá samgönguráðuneyti til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis.

Þar sem mikilvægt er að hægt sé að koma til móts við bændur og draga úr yfirvofandi uppskerubresti sem fyrst með aðkomu sjóðsins gerir nefndin breytingartillögu um gildistöku frumvarpsins á þann veg að lögin öðlist gildi nú þegar.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Fyrri málsliður 16. gr. orðist svo: Lög þessi öðlast þegar gildi.

Sturla Böðvarsson skrifar undir álitið með fyrirvara og Guðjón A. Kristjánsson skrifar undir álitið með fyrirvara um að ekki ætti að ganga alla leið hvað varðar brotthvarf sveitarfélaganna úr sjóðunum í einu lagi.

Karl V. Matthíasson og Árni Johnsen voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir álitið rita auk þeirrar sem hér stendur Árni Þór Sigurðsson, Björgvin G. Sigurðsson, Helga Sigrún Harðardóttir, Guðjón A. Kristjánsson, með fyrirvara, Sturla Böðvarsson, með fyrirvara, og Ólöf Nordal.