136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[21:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um Bjargráðasjóð og nefndarálit um það. Ég sakna þess að nefndin hefur ekkert fjallað um gjaldtöku af landbúnaði yfirleitt, þ.e. búvörugjaldið sem stendur undir Bjargráðasjóði. Það er bara skorinn einn endi af, þ.e. framlag sveitarfélaganna til Bjargráðasjóðs sem er í rauninni erfitt að rökstyðja og hefur numið 35–40 millj. síðustu árin. Það er skorið af og eigninni skipt en restin skilin eftir í limbói.

Þegar þjóðin verður fyrir slíku áfalli eins og hún hefur orðið fyrir hefði maður talið að menn tækju allt til endurskoðunar, öll gjöld og alla sjóði og athugaði hvort þetta væri nauðsynlegt eða ekki. Það hefur nefndin ekki gert og skautað svona frekar létt yfir þetta mál, finnst mér.

Fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu, sem er dómstóll sem dæmir um mannréttindi, er mál um iðnaðarmálagjald. Ég held að málið verði tekið fyrir annaðhvort 24. mars eða 24. apríl, ég man ekki hvort heldur, en það er sem sagt mjög stutt í að þar verði fjallað um það hvort iðnaðarmálagjald, sem ríkissjóður innheimtir nákvæmlega eins og búvörugjaldið, standist mannréttindi, þ.e. varðandi félagafrelsi og skoðanafrelsi. Eins og þegar mönnum er gert að greiða t.d. í BSRB, opinberum starfsmönnum er gert að greiða í BSRB, og síðan er formaður BSRB pólitískur leiðtogi á Alþingi, ráðherra, og hann er að tjá alls konar skoðanir í blöðum, skoðanir sínar að sjálfsögðu en um leið var hann formaður BSRB og var í rauninni að tjá skoðanir alls þess fólks sem er neytt til að borga í félagið og gat verið á öndverðum meiði og var yfirleitt á öndverðum meiði vegna þess að vinstri grænir hafa undir 20% fylgi eða um það bil, þ.e. 80% opinberra starfsmanna, getur maður ályktað, eru á öðru máli en samt er þeim gert að borga í stéttarfélag opinberra starfsmanna sem nálgast það að vera pólitískur flokkur. Þetta snertir mál sem kom upp í morgun þar sem einn starfsmaður ASÍ sem er í Framsóknarflokknum var rekinn af því að hann tók þátt í pólitísku starfi og er efsti maður á lista í einhverju kjördæmi. Sem er mjög athyglisvert líka því að þessi starfsmaður var ekki einu sinni framkvæmdastjóri og hvað þá formaður stjórnar eins og verið hefur hjá BSRB í öll þessi ár.

Þetta tengist vegna þess að við erum að tala um gjald, búnaðargjaldið, sem er lagt á með lögum frá Alþingi, innheimt með öllu því valdi sem ríkisvaldið hefur, fangelsunum o.s.frv. ef menn ekki borga. Það eru mjög hörð ákvæði og gjaldið rennur til félagasamtaka einstaklinga, þ.e. ekki til ríkisins. Þetta er ekki skattur í þeim skilningi. Þarna er ríkið, ég kalla það misnotað til að innheimta félagsgjöld.

Bændasamtökin hafa ekki verið neitt sérstaklega pólitísk og ég dáist að þeim fyrir það. Önnur samtök, t.d. Samtök iðnaðarins eru mjög pólitísk varðandi Evrópusambandsaðild. Það er ekkert víst að allir þeir sem er gert að borga iðnaðarmálagjald séu sammála þeirri stefnu. Ekki allir, hver og einn einasti, en þeir þurfa samt að borga fyrir stefnuna með gjöldum sínum. Þeir borga fyrir áróður gegn sinni eigin skoðun, það er skoðanakúgun, og þeim er gert að gera það með lögum.

Þetta tengist líka búnaðargjaldinu. Ég skil ekki hvernig hv. landbúnaðarnefnd getur fjallað um þetta mál án þess að skoða þetta allt, vitandi að það eru málaferli hjá Mannréttindadómstólnum o.s.frv. Fyrir Alþingi liggur frumvarp eða lá fyrir löngu síðan sem ég flutti á 135. þingi um afnám búnaðargjaldsins einmitt með þeim rökum að þetta bryti mannréttindi.

Varðandi Bjargráðasjóð einan sér, hann hefur starfað nokkuð lengi, og það sem maður rekur augun í við hann er afskaplega hár kostnaður. Rekstrargjöld eru 20–25 millj. á ári sem er um 33–50% af styrkjum sem sjóðurinn veitir. Þetta er óskaplega mikill kostnaður. Þetta er mjög dýrt apparat. Til dæmis er það sem bændur borga inn í þetta, sem er búnaðargjaldið sem hefur verið svona 28 millj., minna en kostnaðurinn. Búnaðargjaldið stendur ekki einu sinni undir kostnaðinum við sjóðinn. Þetta mun væntanlega verða enn verra þegar framlag sveitarfélaganna dettur úr en það hefur nánast staðið undir kostnaðinum. Þess vegna finnst mér að nefndin hefði átt að skoða sjóðinn í heild sinni, hver eigi að borga kostnaðinn þegar þessi tekjustofn dettur út. Mér finnst nefndin hafa skautað dálítið létt yfir þetta þegar maður sér þetta svona.

Svo má færa rök fyrir því að allt það sem Bjargráðasjóður geri sé hægt að tryggja annars staðar. Annaðhvort í viðlagatryggingu eða bara á frjálsum markaði. Það eru til tryggingar fyrir þessu öllu saman og spurning hvers vegna verið er að skattleggja bændur, alla bændur, líka fátæka bændur, og bændur sem hafa engar tekjur eru líka skattlagðir því að búvörugjaldið er skattur á veltu búsins burt séð frá tekjum. Þetta er afskaplega ófélagslegur skattur, ég hef stundum kallað þetta skatt á fátækt vegna þess að bændur sem eru fátækir og hafa litlar tekjur, kannski dálitla veltu en mjög lítinn arð af búskapnum, eru látnir borga en þeir eru svo fátækir að þeir fá ekki lán. Þeir fengu ekki lán úr lánasjóðnum þegar hann var til og þeir njóta ekki þeirra trygginga og þess sem kerfið er að byggja upp, en þeir skulu borga. Ríkir bændur og sterkir fengu lánin og fengu út úr kerfinu. Ég hef því stundum kallað þetta skattlagningu á fátækt og þótti fyrrverandi hæstv. landbúnaðarráðherra, Guðna Ágústssyni, það ekki skemmtilegt enda get ég alveg trúað því.

Ég sakna þess að menn hafi ekki skoðað hvað verður um Bjargráðasjóð eftir þessa breytingu. Ég sakna þess líka að menn skuli ekki hafa skoðað þetta gjald, búnaðargjaldið, sem var uppistaðan við hliðina á framlagi sveitarfélaganna — það er reyndar framlag ríkissjóðs líka, skattgreiðenda — að menn skuli ekki hafa skoðað þetta allt saman í samhengi. Allt er þetta borgað af einhverjum. Og þessi gífurlegi kostnaður hjá sjóðnum sem eru rekstrargjöld upp á 25 millj., menn taka ekkert á því í nefndarvinnunni hver eigi að standa undir þeim kostnaði og hvort það sé eitthvert réttlæti í því að halda þessum sjóði áfram. Það er ekki spurning um það, það er bara klippt hér að hluti af eigninni fari til sveitarfélaganna og auðvitað ekki til sveitarfélaganna heldur til Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það er alltaf sama hugsunin — það eru alltaf samböndin, það er alltaf búnaðarfélagið eða samböndin eða einhver sem fær peningana en aldrei þeir sem borguðu, þ.e. bændur. Auðvitað átti að endurgreiða bændum þetta eða endurgreiða sveitarfélögunum í hlutfalli við það sem þau greiddu kannski síðustu þrjú árin eða eitthvað slíkt. Þau áttu bara að fá eignina heim til sín og geta ráðstafað henni sjálf, sveitarfélögin. Nei, nefndin gerði það ekki og fór auðveldu leiðina og frumvarpið gerir það líka. Það fer auðveldu leiðina og lætur þetta inn í Samband íslenskra sveitarfélaga.

Ég ætla ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta. Ég held að við þurfum núna … (Gripið fram í.) Já, það er líka sérkapítuli, ég gæti talað um Fiskræktarsjóð og ég gæti talað allt kvöldið í rauninni um alls konar svona óeðli og óeðlilegar greiðslur sem búið er að setja inn í kerfið sem einhverjir aðilar hafa komið inn til að auðvelda sér lífið með því að láta ríkið innheimta félagsgjöld. Þegar þjóðin verður fyrir svona áfalli eins og núna þurfa menn að fara að skoða þetta allt saman. Er þörf á þessu eða er þörf á hinu? Allt eru þetta álögur, í þessu tilfelli á bændur sem eru ekkert voðalega rík stétt eða tekjuhá. Það þekkir hv. þm. Jón Bjarnason. Iðnaðarmálagjaldið er lagt á öll iðnfyrirtæki. Fiskiræktargjaldið er lagt á orkuver. Kárahnjúkavirkjun er að borga fiskiræktargjald eins og það sé einhver padda þarna uppi í lóninu. (Gripið fram í.) Ég efast um það. Þetta er alveg með ólíkindum. (JBjarn: … og Landsvirkjun neita að borga.) Samkvæmt lögum eiga þeir að borga fiskiræktargjald en þeir geta reynt að neita því. (JBjarn: Svo er búið að breyta lögunum.)

Svo eru það gjöldin í sjávarútveginum sem er alveg kafli út af fyrir sig og sumir hv. þingmenn hér í salnum þekkja betur en aðrir. Það er mjög mikið af svona gjöldum. STEF-gjöldin. Er mönnum t.d. ljóst að lagt er STEF-gjald á hverja einustu tölvu? 1% af verði tölvu rennur til STEF með þeim rökum að það kynni að vera að menn spili hljómplötur á tölvuna. Það sem ég nota mest í tölvunni minni sem hefur höfundarrétt eru forrit en þeir höfundar fá ekki neitt. Svo eru það líka ljósmyndir sem ég hef tekið og ég á sjálfur og á höfundarrétt að og ég fæ ekki neitt. Ég hef bara ekki spilað tónlist í dálítinn tíma á tölvuna mína en ég skal borga 1% af tölvunni til STEF. Þarna eru menn búnir að grípa inn og nota löggjafann til að innheimta fyrir sig félagsgjöld út og suður. Þegar þjóðin verður fyrir svona áfalli eins og núna finnst mér að menn eigi að skoða þetta allt saman. Eigum við að hækka verð á tölvum í landinu um 1% til að hjálpa STEF? Er virkilega þörf á því? Þeir hafa höfundalögin til að innheimta STEF-gjöldin fyrir utan það að þau eru innheimt líka af allri tónlist á útvarpsstöðvum út um allt.

Það er heilmikið verk að vinna hjá Alþingi að skera niður alla þessa óþarfa, hvað eigum við að segja, skavanka af þjóðarlíkamanum þannig að menn geti farið að vinna á heilbrigðan hátt. Iðnfyrirtækin geta borgað félagsgjald þau sem það vilja. Bændur geta borgað félagsgjald til sinna stéttarfélaga eða samtaka ef þeir vilja og sjómenn sömuleiðis.

Þetta frumvarp er einn smáangi af þessu og ég mátti til með að koma inn í umræðna vegna þess að nefndin sem um þetta fjallaði tók bara verkefnið frá ríkisstjórninni, afgreiddi það, það átti að gera þetta svona og hún skoðaði ekkert meir, hvorki búnaðargjaldið í heild sinni né örlög sjóðsins, hvað verður um hann. Því er bara ýtt til hliðar og framtíðin sker úr því. En auðvitað þurfum við að taka á öllu núna af öllum okkar kröftum í þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir og þeim hallarekstri ríkissjóðs sem þarf að laga á næstu þremur árum.