136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[21:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það vill svo til að 30. október sl., stuttu eftir hrunið, tók ég mína ábyrgð á því sem varðar lagasetningu. (Gripið fram í.) Ég sagði í þeirri ræðu að ég tæki ábyrgð á þeim göllum sem væru í lagasetningu sem reyndar kæmi mestöll frá Evrópusambandinu.

En þetta er eins og biluð plata hjá hv. þingmanni Vinstri grænna og ráðherrum. Það er alltaf talað um 18 ára valdasetu Sjálfstæðisflokksins, græðgisvæðingu og það er bara allt því að kenna, (JBjarn: Auðvitað.) líka vandamálin í barnaverndarmálum o.s.frv. (Gripið fram í.) Það er bara nákvæmlega eins og sumir þingmenn sem geta ekki talað um mál án þess að segja að það sé kvótanum að kenna. (Gripið fram í.) Svo eru aðrir hjá Samfylkingunni sem geta ekki fundið aðra lausn á neinu máli en að ganga í Evrópusambandið. (Gripið fram í: Ætlarðu að biðjast afsökunar?) Ég gerði það 30. október, minn kæri. (Gripið fram í.) Þetta er eins og biluð plata hjá hv. þingmanni.

Það sem við erum að tala um hérna eru álögur á bændur. Ég vildi gjarnan að hv. þingmaður hlustaði núna af því að sumir kjósenda hans eru bændur. Það eru álögur sem eru lagðar á alla bændur óháð tekjum. Það er skattlögð velta búsins. Við vitum að á litlum búum getur verið dágóð velta en engar tekjur, og þau skulu borga búvörugjald, búnaðargjald skulu þau borga og þau skulu borga það inn í Bjargráðasjóð og halda uppi miklum kostnaði þar, þetta fátæka fólk. Það er þetta sem ég á við. Þessi félagshyggja hefur snúist upp í andhverfu sína. Hún er orðin skattur á fátækt og þá finnst mér heldur vera farið að hvína í félagshyggjunni. Þá er hún orðin dálítið skrýtin og menn þurfa virkilega að skoða það hverju einasta sinni hvort stéttarfélögin séu orðin of stofnanagerð, hvort þau séu orðin stofnanir. Lítum t.d. á BSRB eða ASÍ, eru þetta stofnanir? Lítum á lífeyrissjóðina. Hver ber ábyrgð þar? (Gripið fram í.) Lífeyrissjóðirnir eru stofnaðir af stéttarfélögum og Samtökum atvinnulífsins (Forseti hringir.) og starfa eftir félagslegum prinsippum.