136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[21:48]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Við ræðum hér í 2. umr. frumvarp til laga um Bjargráðasjóð sem hv. samgöngunefnd afgreiddi nær einróma fyrir utan einhverja fyrirvara, sem mér sýnist að einstakir þingmenn Samfylkingar, Frjálslynda flokksins og Sjálfstæðisflokks hafi á þessu máli og hafa væntanlega gert grein fyrir eða munu gera grein fyrir í umræðunni.

Ég vil í upphafi orða minna lýsa, herra forseti, yfir sérstakri ánægju minni með ræðu hv. þm. Ólafar Nordal, sem er nú í framboði í öðru Reykjavíkurkjördæmanna og verður sárt saknað úr hinu mikla landbúnaðarhéraði Norðausturkjördæmi. Ég er mjög ánægður með að þrátt fyrir að hv. þingmaður skuli hafa skipt um vettvang og sé farin úr Norðausturkjördæmi á höfuðborgarsvæðið, skuli hún hugsa hlýtt til bændastéttarinnar og þeirra mikilvægu hagsmuna sem þar liggja. Til fróðleiks er hægt að segja að ekki bera allir samflokksmenn hv. þingmanns hér á höfuðborgarsvæðinu jafnhlýjar tilfinningar til bændastéttarinnar og hv. þingmaður lét af hér áðan þannig að ég á von á því að framboð hennar og tilvist í Reykjavíkurkjördæmunum muni efla mjög íslenska bændastétt og gott að vita til þess að í röðum sjálfstæðismanna í Reykjavík skuli vera svo öflugur talsmaður fyrir þessa stétt, því að hún er mjög mikilvæg og miklu máli skiptir á þessum síðustu og verstu tímum að standa vörð um íslenskan landbúnað og innlenda matvælaframleiðslu.

Það fer ekki fram hjá neinum að hluti af því frumvarpi sem hér um ræðir á m.a. að koma til móts við þá grafalvarlegu stöðu sem er uppi nú, þetta frumvarp á að draga úr hættu á uppskerubresti, raunverulegri hættu í ljósi þess að verð á áburði hefur stórhækkað á undangengnum tveimur árum. Bóndi í Eyjafirði sagði mér á dögunum að í fyrra hefði áburðarreikningur hans hækkað um 80% og nú liti út fyrir að til viðbótar yrði 50% hækkun á áburðarverði í ár. Það gerir um 170% hækkun á einungis tæpum tveimur árum, sem segir sig náttúrlega segir sjálft í ljósi erfiðs árferðis að hlýtur að bitna á starfsemi bænda og getur jafnvel stefnt því í hættu að þeir geti ræktað land sitt með eðlilegum hætti. Ef bændur hafa ekki nægileg fjárráð til að kaupa sér áburð getur það leitt til uppskerubrests og þetta frumvarp á að stuðla að því að Bjargráðasjóður geti mætt þessum erfiðleikum bænda með því að deila út fjármunum til stéttarinnar til að koma til móts við þessar miklu hækkanir.

Nú er það svo að margir gætu haldið að hér séu stjórnvöld að gera bændum einhvern sérstakan greiða eða verið sé að færa fjármuni úr ríkissjóði til þessarar mikilvægu atvinnustéttar, en svo er ekki. Bændur hafa um áratugaskeið greitt mikla fjármuni í Bjargráðasjóð og það sem verið er að gera með þeirri breytingartillögu sem hér er lögð til og við framsóknarmenn styðjum mjög einarðlega er að bændur fá nú að hluta til baka þá fjármuni sem þeir hafa lagt Bjargráðasjóðs til í gegnum árin. Það framlag sem hér um ræðir kemur í raun og veru ekki rekstri ríkissjóðs við, hér er um eign bændastéttarinnar að ræða sem búnaðarþing hefur oftsinnis ályktað um og nú síðast að eigi að renna til kaupa á áburði í ljósi stöðu mála.

Gert ráð fyrir því að kostnaðarauki bænda vegna áburðarkaupa á þessu ári geti verið um 700 millj. kr. Það segir sig sjálft þegar bændastéttin stendur frammi fyrir því að búvörusamningar voru í raun og veru skertir um 700–800 millj. kr. að stéttin þolir ekki fleiri áföll og það getur haft mjög alvarleg áhrif fyrir innlenda matvælaframleiðslu ef við bregðumst ekki við þeim vanda sem blasir við. Við hljótum líka að velta fyrir okkur með þessu áframhaldi í ljósi gengis krónunnar hvort það fari að verða hagstæðara fyrir bændastéttina að selja afurðir sínar úr landi frekar en á innanlandsmarkað. Við höfum heyrt það frá aðilum innan greinarinnar að margir eru jafnvel farnir að horfa til þess valkosts að skoða útflutning á íslenskum landbúnaðarafurðum i miklu meira mæli en er í dag.

Hvaða afleiðingar, herra forseti, gæti slíkur útflutningur, ef við gefum okkur að hann yrði í massavís, haft fyrir íslenskt þjóðarbú? Jú, við yrðum væntanlega að kaupa meira erlendis frá og flytja inn í landið. Ég held að menn verði að huga að því, sérstaklega á þeim tímum sem við lifum nú á, hversu mikilvæg innlend matvælaframleiðsla er, því að með því að efla innlenda matvælaframleiðslu höldum við fjármunum inni í efnahagskerfinu, en ef við værum háð miklum innflutningi yrðum við að borga hann dýrum dómum, sem mundi þýða að fjármunir streymdu úr íslenska hagkerfinu til erlendra aðila í stað þess sem við búum við núna að með öflugri innlendri matvælaframleiðslu haldast fjármunir innan lands sem skiptir mjög miklu máli, sérstaklega á þeim krepputímum sem blasa við okkur nú.

Herra forseti. Ég vildi í örfáum orðum fjalla um þetta mál sem er hér til 2. umr. og aðalumræðu vegna þess að hér er um mjög stórt hagsmunamál að ræða, ekki bara fyrir íslenska bændur og bændastéttina heldur líka neytendur og íslenskt hagkerfi. Við leggjum aldrei nógsamlega áherslu á það, sérstaklega eins og nú stendur á, að tryggja fæðuöryggi íslenskrar þjóðar. Fyrir því höfum við framsóknarmenn talað á undangengnum árum, vorum m.a. með landbúnaðarráðuneytið um tólf ára skeið þar sem við reyndum að standa vörð um starfsemi landbúnaðarins og það fæðuöryggi sem ég hef nefnt í ræðu minni. Reyndar er það svo að sumir ónefndir flokkar hafa haft mikinn áhuga á því að stuðla að gríðarmiklum innflutningi á matvælum og þar með jafnvel að veikja undirstöður íslensks landbúnaðar.

Ég finn í dag, herra forseti, mikinn samhljóm á milli íslenskra stjórnmálaflokka um að standa beri vörð um íslenskan landbúnað og tala ég þá til ágætra félaga minna hér í salnum sem tilheyra Samfylkingunni, hæstv. ráðherra Össurar Skarphéðinssonar og hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, sem ég er fullviss um að vilja veg íslensks landbúnaðar sem mestan. Það er ákveðinn sigur hér í umræðunni, í umræðu um íslenskan landbúnað og störf bænda, að samhljómur skuli vera um að íslenskur landbúnaður sé þýðingarmikill og að við eigum að leita allra ráða til að styrkja grundvöll hans, styrkja íslenska, innlenda matvælaframleiðslu og tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar. Það er ákveðin söguleg sátt sem mér finnst ég greina í umræðunni í dag og fyrir það ber í raun og veru að þakka því að þjóðin hefur á undangengnum áratugum oftar en ekki skipst í tvær fylkingar, sumir hafa viljað veg bænda og innlendrar matvælaframleiðslu sem mestan en aðrir hafa viljað hömlulausan innflutning sem hefði í sjálfu sér gert stöðu greinarinnar miklu verri en hún er í dag. Ég loka ekkert augunum fyrir því, herra forseti, að staða þessarar stéttar er mjög viðkvæm í dag og ríkjandi stjórnvöld verða að leita allra leiða og lausna til að styrkja við atvinnugreinina sem, eins og ég hef farið hér yfir í örstuttu máli, er okkur öllum svo mikilvæg.

Ég hef einungis rætt að hluta til um þær breytingar sem lagðar eru til í þessum lagabálki og ætla svo sem ekki að setja á langa ræðu hér vegna þess að ég talaði um þetta mál í 1. umr., en mér finnst við ekki geta lagt nógsamlega áherslu á að standa verður vörð um innlendu matvælaframleiðslu, eins og ég hef svo margoft talað hér um, og í dag slær hjartað á réttum stað, held ég, hjá öllum þingmönnum gagnvart þessari atvinnugrein og það skiptir miklu máli.

Við framsóknarmenn höfum talað hér á þingi fyrir því að reyna að ná sem breiðastri sátt um breytingar til handa heimilum og fyrirtækjum og vissulega þurfum við að hlúa að bændastéttinni og hún á ekki að gleymast nú á erfiðum tímum og því leggjum við mikla áherslu á að þetta mál verði samþykkt sem og svo margt annað sem við höfum rætt um, svo sem lækkun stýrivaxta, sem eru að drepa atvinnulífið og kannski ekki síst skuldug bú víða um landið og þá aðallega mjólkurbúin. Við þurfum að ráðast að raunverulegum meinsemdum í íslenska efnahagskerfinu, sem eru þessir himinháu stýrivextir, og því miður höfðu margir bændur skuldsett sig í erlendri mynt og horfa því margir fram á gjaldþrot verði ekkert að gert og það segir sig sjálft að við þurfum að taka mjög róttækt á vanda þeirra búa sem eru skuldug og því miður duga tekjur þeirra engan veginn til til að standa undir þeim miklu skuldum.

Þess vegna höfum við framsóknarmenn talað fyrir mjög róttækum hugmyndum þegar kemur að leiðréttingu á skuldum heimila og fyrirtækja, leiðréttingu vil ég segja, og það er mikilvægt í þessari umræðu að við megum ekki festast í því að ætla að beita einhverjum smáskammtalækningum á heimili eða fyrirtæki á þessum sögulega erfiðu tímum sem við stöndum frammi fyrir. Ég brýni ríkisstjórnina og aðra stjórnmálaflokka hér á Alþingi til að koma með okkur framsóknarmönnum í þá vegferð að leita róttækra lausna á því hvernig við komum til móts við vanda heimilanna og fyrirtækjanna. (Gripið fram í.)

Ég man að í umræðu um efnahagstillögur okkar framsóknarmanna hér eitt kvöldið þar sem við töluðum langt fram eftir kvöldi kom hæstv. iðnaðarráðherra kófsveittur niður á þing, nýkominn úr sturtu, hljóp vasklega inn í salinn, kom í ræðustól þingsins og lýsti yfir eindregnum stuðningi við þær hugmyndir sem við framsóknarmenn höfðum lagt fram. Reyndar var það stuðningur við þau markmið sem við höfum sett fram, (Gripið fram í.) og flest allt, en leiðirnar sem hann vildi fara að þessum markmiðum voru að einhverju leyti ólíkar því sem við lögðum til, en við settum fram mjög róttækar hugmyndir á sviði efnahagsmála til að kalla fram umræðu um það hvernig við ætluðum að takast á við þau brýnu efnahagslegu vandamál sem blasa við þjóðinni.

Það góða er að efnahagstillögur Framsóknarflokksins eru nú komnar inn í efnahags- og skattanefnd, búið er að senda tillögurnar út í íslenskt samfélag til umsagnar og ég vonast til þess að þær verði afgreiddar í góðu samstarfi við Samfylkinguna, Sjálfstæðisflokkinn, Vinstri græna — reyndar ekki Frjálslynda flokkinn sem eftirminnilega hafnaði öllum 18 tillögunum sem við framsóknarmenn lögðum fram. Hv. þm. Grétar Mar Jónsson hélt vægast sagt hörkuræðu þar sem hann skaut hverja einustu tillögu sem færustu sérfræðingar þjóðarinnar á sviði efnahagsmála höfðu legið yfir um margra vikna skeið Hann kom hér upp, hélt 15 mínútna langa ræðu og sló allar 18 tillögurnar sem við framsóknarmenn höfðum lagt til til að koma til móts við vanda heimila og fyrirtækja, út af borðinu. (Gripið fram í.) Ekki ein tillaga á mínútu, fimmtíu og eitthvað sekúndur á tillögu og þvílíkt afrek, sem hv. þingmaður Frjálslynda flokksins vann úr ræðustóli Alþingis, verður seint apað eftir og ég vona reyndar að hv. þingmaður hafi lesið ræðuna sem hann flutti yfir á eftir og jafnvel leiðrétt eitthvað af því sem hann sagði þar. (Gripið fram í.) Ég vona að hv. þm. Grétar Mar Jónsson hafi eitthvað skipt um skoðun eftir þetta slæma kvöld sem hann átti hér í umræðum um efnahagstillögur Framsóknarflokksins.

Herra forseti. Allt hnígur þetta í sömu átt. Við hljótum að vilja, sama hvar í flokki við stöndum, koma til móts við heimilin og atvinnustarfsemina í landinu. Markmið frumvarpsins sem við ræðum hér er að koma til móts við bændur vegna áburðarkaupa og reyndar er kveðið á um margar aðrar breytingar á skipulagi Bjargráðasjóðs í þessu frumvarpi sem ég ræddi við 1. umr. En ég kom í þessa umræðu til að leggja áherslu á það að framsóknarmenn standa heils hugar á bak við frumvarpið sem við ræðum hér og ég ítreka að hér er ekki verið að rétta íslenskum bændum neina ölmusu, þetta eru fjármunir sem þeir hafa lagt til Bjargráðasjóðs á undangengnum árum og áratugum og við erum einungis að liðka til svo fjármunir geti runnið úr þessum sjóði og komið til móts við erfiða stöðu í íslenskum landbúnaði.