136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[22:23]
Horfa

Frsm. samgn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka öllum þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu fyrir mjög málefnaleg innlegg og segja í upphafi að mér heyrist mjög þverpólitísk sátt um að þetta mál nái fram að ganga. Ég get í sjálfu sér tekið undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa rætt hér um mikilvægi þessara breytinga og ég tel að það hafi verið mikið heillaspor þegar málinu var kippt hér út á síðasta þingi. Þá kom fram mjög mikil gagnrýni á að alfarið ætti að leggja Bjargráðasjóð niður í núverandi mynd. Það var reyndar í óþökk Bændasamtakanna og Bændasamtökin mótmæltu því þannig að málinu var einfaldlega kippt til baka og það unnið áfram.

Það er rétt að geta þess að aðdragandinn að þessu máli er sá að Samband íslenskra sveitarfélaga óskaði eftir því við samstarfsaðila sína að fara út úr þessum sjóði. Þannig fer málið af stað, enda vandséð í raun og veru sú réttlæting að sveitarfélögin í landinu komi sérstaklega að rekstri Bjargráðasjóðs. Verkefni sjóðsins er alls ekki tengt sveitarstjórnarmálum, heldur atvinnumálum og því er auðvitað skiljanlegt að sveitarfélögin vilji fara út úr sjóðnum.

Hv. þm. Pétur Blöndal gat um búnaðargjaldið sem stendur undir Bjargráðasjóði, hv. þingmaður gagnrýndi nefndina töluvert fyrir að hafa ekki skoðað máli heildstætt. Það var einfaldlega ákvörðun okkar í nefndinni að taka þetta mál og vinna það út frá gefnum forsendum í þessu. Ég vil þó ítreka að af hálfu aðila og landbúnaðarráðuneytisins, sem fer nú í framhaldinu með verkefni sjóðsins, stendur til heildarendurskoðun á Bjargráðasjóði. Í ljósi þess taldi hv. samgöngunefnd ekki tilefni til að fara sérstaklega í heildarendurskoðun núna, en auðvitað er hægt að taka undir margt af því sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði um sjóðinn að því leytinu til að þingnefndir og þingmenn eiga alltaf að setja spurningarmerki við mál þegar þau koma inn. Það á auðvitað að skoða þetta í heild sinni en það var einfaldlega niðurstaða okkar núna að gera þetta svona.

Það er líka rétt að geta þess að þeir fjármunir sem sveitarfélögin hafa sett inn í Bjargráðasjóð, um 40 millj. kr. á ári, eru auðvitað tekjumissir fyrir Bjargráðasjóð. Síðan er sérstök ákvörðun á fjárlögum hverju sinni hvort ríkisvaldið ákveður að setja í framhaldinu frekari fjármuni inn í Bjargráðasjóð. Það er ákvörðun sem bíður fjárlaga hverju sinni. Mér sýnist miðað við útgjöld sjóðsins — það er rétt að halda því til haga að útgjöld sjóðsins hafa á stundum verið þó nokkur þó að það hafi líka komið ár þar sem lítið hefur farið út úr sjóðnum — að auðvitað kunni að koma til þess að ríkisvaldið þurfi að leggja inn fjármuni til viðbótar. Það er þá bara ákvörðun þess tíma þegar og ef að því kemur, en þessi athugasemd hv. þm. Péturs Blöndals á vissulega rétt á sér varðandi þetta með heildarendurskoðunina. Ég ítreka þó að það kom fram í nefndinni að í framhaldinu væri ætlunin að skoða Bjargráðasjóð algjörlega í heild sinni. Þá vænti ég þess að ný samgöngunefnd, sem tekur til starfa eftir næstu kosningar, fái það mál til umfjöllunar og geti farið yfir það í heild sinni. Það var samhljóða niðurstaða allra nefndarmanna að gera þetta núna með þessum hætti og ég hygg að um það sé nokkuð þverpólitísk sátt í samgöngunefnd.

Ég ítreka þakkir fyrir ágætar og málefnalegar umræður um málefni Bjargráðasjóðs.