136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[22:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hv. þingmaður sagði að framtíð Bjargráðasjóðs væri til skoðunar í nefndinni. Ég held að þetta sé einmitt vandinn í hnotskurn, herra forseti. Menn eru að skoða og menn eru að velta fyrir sér og spekúlera en það er svo lítið um ákvarðanir, það er svo lítið um að menn taki á málum. Það er einmitt það sem þjóðin bíður eftir, hún er að bíða eftir að tekið sé á málum.

Búnaðargjaldið er skattur sem lagður er á alla bændur og rennur að hluta til inn í búnaðarþing Bændasamtaka Íslands sem kostar hundruð milljóna á ári. Þau hundruð milljóna eru borguð af bændum með skattlagningu. Maður hlýtur að spyrja: Væri ekki betra fyrir bændur að ráða því sjálfir hvort þeir vilja borga félagsgjald til einhvers stéttarfélags, einhvers búnaðarsambands eða einhvers annars stéttarfélags? Mundu þeir e.t.v. vilja stofna sérstéttarfélag frekar en að láta rífa þetta af sér með ríkisvaldinu, með öllu afli ríkisvaldsins, skattheimtuvaldi og meira að segja fangelsi ef ég man rétt ef menn greiða ekki og leyfa þeim sem sagt sjálfum að hafa þessi peninga?

Þetta er spurningin sem nefndin hefði átt að velta fyrir sér. Þetta þurfa menn að ræða kannski í 3–4 vikur í nefndinni og taka svo ákvörðun og leggja gjaldið af eða ekki. Ef rök eru með því að viðhalda þessari skattlagningu á alla bændastéttina gera menn það og taka af henni hundruð milljóna af því að hún er svo rík og voldug og getur svo auðveldlega borgað þetta eða þá að menn segja: Það er ekki skynsamlegt að skikka bændur til að borga þetta og leggja búnaðargjaldið niður.