136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

greiðslur til líffæragjafa.

259. mál
[22:42]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig fullkomlega á efni frumvarpsins en í 8. gr. segir að það þurfi að liggja fyrir vottorð sérfræðilæknis sem annast líffæragjöfina um hvenær líffæragjafinn varð óvinnufær vegna líffæragjafarinnar sem og í hversu langan tíma hann verði óvinnufær. Það er þetta atriði í 8. gr. sem ég er að spyrja um, af því að það er eins og gert sé ráð fyrir að það sé eingöngu íslenskur sérfræðingur, það er ekki svo auðvelt að nálgast það með öðrum hætti.

Það er annað atriði sem mig langaði að spyrja um mér til upplýsingar. Í athugasemdum við lagafrumvarpið kemur fram að heilbrigðisráðherra hyggist breyta ákvæðum tveggja reglugerða, annars vegar reglugerðar um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu og hins vegar reglugerðar um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innan lands, í því skyni að tryggja að líffæragjafar sem eru sjúkratryggðir hér á landi þurfi hvorki að greiða hlutdeild sjúkratryggðs í heilbrigðisþjónustu né óhjákvæmilegan ferðakostnað.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort honum sé kunnugt um að þessi reglugerð liggi þegar fyrir eða hvernig því sé háttað.