136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

greiðslur til líffæragjafa.

259. mál
[23:03]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér erum við að fjalla um mikilvægt mál sem varðar greiðslur til líffæragjafa. Ég hef ekkert út á það mál að setja né í raun ræðu hv. þingmanns í aðalatriðum. En ég hjó eftir því — að vísu skal ég viðurkenna, hæstv. forseti, að það er nú orðið liðið á kvöld og maður er svona við það að sofna hérna í stólnum. En ég hrökk upp við það að hv. þingmaður sagði að Sjálfstæðisflokkurinn hefði átt frumkvæðið að því að hér voru sett lög um fæðingarorlof sem eru mjög róttæk og mikilvæg og hafa vakið athygli víða um heim (Gripið fram í: Það er rétt.) sem varða rétt feðra sérstaklega.

Þetta er ekki rétt og mikilvægt fyrir mig að fá hérna tækifæri til að leiðrétta það vegna þess að það var nú Framsóknarflokkurinn sem átti frumkvæðið að þessari löggjöf og í raun var Sjálfstæðisflokkurinn mjög þungur í samstarfi um að setja þessi lög og Samband ungra sjálfstæðismanna ályktaði gegn lögunum. Engu að síður varð þetta nú niðurstaðan og ég held að það sé nokkuð sem við getum verið mjög stolt af.

Þetta vildi ég nú að kæmist hér á framfæri bara til þess að sagan sér rétt skrifuð.