136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

greiðslur til líffæragjafa.

259. mál
[23:04]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú ekki svo langt liðið á kvöld að maður muni ekki þessa hluti. Ég átti nú meðal annars þátt í þeirri umræðu sem fór fram innan Sjálfstæðisflokksins í þessa veru. Umræða um sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs kviknaði meðal kvenna í Sjálfstæðisflokknum ekkert síst. Auðvitað var mikil umræða í gangi um þetta og ekki voru (Gripið fram í: ... voru á móti málinu.) allir sáttir við þessa niðurstöðu. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að ákveðnir aðilar innan flokksins voru ekki sammála þessu. Samt sem áður varð þessi niðurstaða ofan á og það voru konur í Sjálfstæðisflokknum ekki síst sem börðust fyrir því að þetta frumvarp og þessi lög færu í gegn.

Ég er hins vegar alveg tilbúin að gefa Framsóknarflokknum það kredit (Gripið fram í.) að hann var í ríkisstjórn þegar þetta fór í gegn. En ég man það, þar sem þetta var nú á mínu fyrsta kjörtímabili hér á þinginu, að baráttan var löng og hún var ströng. En hún hafðist og það var fyrst og fremst að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins sem það ákvæði varð að lögum er varðaði feðraorlof, þ.e. sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs svo ég komi þessu rétt út úr mér.

Á þeim tíma og enn í dag þykir þetta eitt stærsta mál í jafnréttisbaráttu karla og kvenna innan sem utan heimila og það hefur sýnt sig að þetta frumvarp, þessi lög hafa gjörbreytt aðstæðum inni á heimilum meðal fjölskyldna, gefið körlum tækifæri til þess að kynnast börnum sínum með öðrum hætti heldur en áður og bera ábyrgð (Forseti hringir.) á heimilum með öðrum og ábyrgari hætti en áður.