136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

greiðslur til líffæragjafa.

259. mál
[23:09]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um greiðslur til líffæragjafa. Eftir að hafa fjallað um málið í félags- og tryggingamálanefnd meðal annars komu fram tillögur um að breyta titli frumvarpsins og tala um greiðslur eða fjárhagsaðstoð til lifandi líffæragjafa því um það fjallar þetta frumvarp.

Tvennt skiptir hér meginmáli, þ.e. að með þessu frumvarpi er bundið í lög að þeir fórnfúsu aðilar sem tilbúnir eru að gefa öðrum líffæri eða hluta úr líffæri þurfi ekki að bera af því fjárhagslegt tjón á nokkurn hátt.

Lagt er til í þessu frumvarpi að þeim sem séu reiðubúnir í slíka líffæragjöf sé með frumvarpinu tryggð fjárhagsleg aðstoð frá ríkinu. Það skiptir líka máli hæstv. forseti að þetta nær til allra sem starfandi eru á vinnumarkaði. Þetta nær einnig til þeirra sem eru atvinnulausir. Þetta nær og til þeirra sem eru í námi. Þetta nær til allra þeirra sem eru tilbúnir að veita eða gefa líffæri eða hluta úr líffæri öðrum til lífsbjargar.

Það skiptir líka máli, hæstv. forseti, að þetta er fjárhagsleg aðstoð. Þetta er ekki greiðsla fyrir líffæri. Þetta er fjárhagsleg aðstoð fyrir þá sem fara í slíkar aðgerðir þannig að þeir geti staðið straum af eðlilegri framfærslu á meðan á slíku stendur. Það er líka mikilvægt í þessu frumvarpi, hæstv. forseti, að horft er til þess að þrátt fyrir fjárhagslega aðstoð skerðist ekki réttindi líffæragjafa í sjúkrasjóð því það er oft með þeim hætti varðandi þann sem veitir og gefur líffæri að sjálf líffæragjöfin getur tekist vel en eftirkvillar gera vart við sig og þá skiptir máli að líffæragjafinn hafi aðgang að sínum sjúkrasjóði og veikindaleyfi ef til slíkra eftirkvilla kemur. Nefndin bendir á að það skipti máli að það komi skýrt fram hver sé vilji löggjafans hvað það varðar að aðilinn haldi sínum réttindum í sjúkrasjóði þrátt fyrir að fá þessa fjárhagslegu aðstoð og geti ef upp koma, eins ég sagði, eftirkvillar, að þá geti hann átt rétt inn í sinn sjúkrasjóð og nýtt sér þá þann veikindarétt sem hann hefur áunnið sér.

Hins vegar er ástæða til þess að benda á 12. gr., um það að líffæragjafi greiðir að lágmarki 4% af greiðslum samkvæmt 8, 10 og 11. gr. í lífeyrissjóð og ríkissjóður greiðir 8% mótframlag, þ.e. að þetta á ekki við um þá sem eru í A-deild eða B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkis og bæja. Þarf að huga sérstaklega að því þegar umræddur líffæragjafi þiggur slíka fjárhagslega aðstoð svo ekki verði rof á greiðslum hans í þessa sjóði. Það eru dæmi um það í öðrum tilvikum og ber að hafa í huga að það þurfi að gera það með áþekkum hætti.

Frumvarpið er framfaraspor, ekki bara hvað varðar fjárhagsaðstoð til þeirra sem tilbúnir eru að gefa líffæri eða hluta úr líffæri. Þetta er líka að mínu mati, ef svo mætti að orði komast, hugsanleg hvatning fyrir þann sem er reiðubúinn að veita og gefa líffæri þannig að hann þurfi ekki samhliða þeirri fórnfúsu gjöf að verða fyrir fjárhagslegu tjóni. Þetta er kannski ekki hvatning til líffæragjafa. En þetta er að minnsta kosti skref í þá átt að sá sem veitir hina fórnfúsu gjöf beri ekki skarðan hlut frá borði fjárhagslega í það minnsta.

Þess má og geta, hæstv. forseti, um þær greiðslur sem hér eru lagðar til úr ríkissjóði eða fjárhagsaðstoð, að er ekki gert ráð fyrir þeim í núgildandi fjárlögum ársins 2009. Nefndinni þótti ekki, þrátt fyrir að ljóst sé — í það minnsta hvað varðar nýrnasjúklinga — í heildina verður sparnaður fyrir ríkissjóð ef líffæragjafi er tilbúinn að gefa nýra og fyrir er líffæraþegi. Þá verður sparnaður af hálfu ríkissjóðs miðað við þann kostnað sem felst í því að nýrnasjúklingur þarf að koma á Landspítalann kannski tvisvar til þrisvar í viku vegna sinna sjúkdóma. Engu að síður, hæstv. forseti, taldi nefndin ekki hægt að ganga á svig við fjárlögin og setja gildistökuna fyrr en hér er ákveðið í frumvarpinu þannig að áætlað er að frumvarpið taki gildi 1. janúar 2010 og er því beint til þeirra sem koma að fjárlagagerð fyrir það ár að þeir taki mið af þessu frumvarpi og veiti því þá að sjálfsögðu brautargengi í fjárlögunum 2010. Þá er hægt að skoða og meta hvernig sé hægt að draga úr kostnaði á öðrum sviðum.

Hæstv. forseti. Frumvarp til laga um fjárhagsaðstoð til lifandi líffæragjafa er hér til umræðu. Ég vona að hv. Alþingi taki þessu frumvarpi fagnandi, veiti því brautargengi og styðji þannig við bakið á þeim fórnfúsu aðilum sem eru tilbúnir að gefa líffæri eða hluta úr líffæri til lífsbjargar öðrum.