136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

lyfjalög.

445. mál
[23:17]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp um breytingu á lyfjalögum kemur frá hv. heilbrigðisnefnd og mælt var fyrir því síðustu nótt klukkan 2:08, ef ég man rétt. Ég var þá ekki á staðnum en kannaði í morgun hvort það hefði farið áfram. Frumvarpið er sem sagt flutt af hv. heilbrigðisnefnd og varðar gildistöku 10. gr. laga og frestunin varðar eingöngu smásölu lyfja.

Gildistökunni er varðar smásölu lyfja hefur í tvígang verið frestað, fyrst til 1. janúar 2009, en frumvarp um breytingu á lyfjalögum sem þetta atriði varðar var samþykkt, ef ég man rétt, á vordögum í fyrra, á síðasta degi þingsins, og átti þetta atriði að taka gildi þá um haustið, 1. október, um leið og ný lyfjalög áttu að taka gildi, en þessu ákvæði var frestað fyrst til 1. janúar 2009 og síðan til 1. apríl 2009. Þetta hangir saman við undirbúning á nýju greiðsluþátttökukerfi lyfja sem var ráðgert að kæmi til framkvæmda í síðasta lagi 1. apríl 2009 og hafði verið talið alveg frá byrjun að afnám afslátta af lyfjum í smásölu héldist í hendur við innleiðingu hins nýja greiðsluþátttökukerfis. En nú er ljóst að þetta kerfi mun ekki taka gildi 1. apríl nk. og því er lagt til að gildistökunni verði frestað til áramóta svo svigrúm skapist til að ljúka vinnu við nýtt greiðsluþátttökukerfi.

Nýtt greiðsluþátttökukerfi almennings vegna heilbrigðisþjónustu átti sem sagt að taka gildi síðasta haust en vinnan tafðist við það. Síðan tók við ný ríkisstjórn 1. febrúar sl. og hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa oftar en einu sinni innt nýjan heilbrigðisráðherra, Ögmund Jónasson, eftir því hvenær þetta nýja greiðsluþátttökukerfi eigi að taka gildi en fátt hefur verið um svör. Er það miður vegna þess að ljóst er að það greiðsluþátttökukerfi sem við búum við í dag er óréttlátt og mikil þörf er á endurskoðun á því. Fram fór töluvert mikil vinna í nefnd, sem var undir formennsku hv. þm. Péturs H. Blöndals, til þess að koma nýju greiðsluþátttökukerfi í gagnið og er mjög miður að það hafi ekki tekist.

Núverandi kerfi greiðsluþátttöku er mjög flókið og tekur til ýmissa þátta. Sjúklingar greiða gjöld vegna heilbrigðisþjónustu mjög víða, m.a. á sjúkrahúsum, á bráðamóttökum, einnig vegna rannsókna, röntgenrannsókna, þeir borga inn á dagdeildir, göngudeildir, þeir borga ferliverk, þ.e. þeir greiða fyrir aðgerðir á sjúkrahúsum sem eru gerðar án innlagnar sem þeir að öðrum kosti hefðu ekki greitt hefði um innlögn verið að ræða.

Sjúklingar greiða jafnframt fyrir heilsugæslu, bæði móttökugjald og rannsóknir, þeir greiða fyrir læknisvottorð, þeir greiða fyrir lyf samkvæmt ákveðnum reglum háð tegundum sjúkdóma, tekjum og stöðu, og þeir greiða fyrir sérfræðiþjónustu utan spítala, fyrir tannlæknaþjónustu og fyrir sjúkrabíla. Það er því víða borið niður. Þessum kostnaði er náttúrlega safnað saman og sjúkratryggingar gefa út afsláttarkort sem gerir það að verkum að viðkomandi greiðir þá lægri upphæð en ella með ákveðnu hámarki, en það breytir því ekki að sumir og sérstaklega langveikir virðast stundum greiða býsna mikið.

Samt sem áður er það svo að greiðsluþátttaka sjúklinga hér á landi er með því lægsta meðal OECD-ríkja þegar á heildina er litið. Þannig er að á bilinu 16–18% kostnaðar við heilbrigðisþjónustu kemur beint úr vasa einstaklinga eða heimilanna en rúmlega 80% er greitt úr ríkissjóði. Hlutur heimilanna er lægri en almennt gengur og gerist innan OECD-ríkja en að sama skapi er heilbrigðiskostnaður hér á landi með því hæsta sem gerist í heiminum. En almennt séð hefur okkur tekist að halda kostnaði heimilanna niðri en það breytir því ekki að kostnaður heimilanna vegna lyfja hefur aukist verulega á síðustu árum, sem m.a. má sjá af því að á árinu 2004 borguðu heimilin um 40% af lyfjakostnaði en hið opinbera borgaði um 60% af heildarkostnaði lyfja. Á árinu 2007 var heildarlyfjakostnaður um 16 milljarðar kr. en þar af var hluti Tryggingastofnunar um 7 milljarðar. Ef marka má þessar tölur virðist það hafa snúist við, þ.e. að á árinu 2004 borguðu einstaklingar eða heimilin um 40% af lyfjakostnaði en á árinu 2007 var lyfjakostnaður heimilanna nær 60%.

Nú er ég ekki með sambærilegar opinberar tölur nema frá árinu 2004 en ég dreg þá ályktun af opinberum tölum um heildarlyfjakostnað sem hægt er að finna í upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins þar sem, eins og ég sagði, kostnaður vegna lyfja, heildarlyfjakostnaður var 16 milljarðar en Tryggingastofnun þar af með 7 milljarða. Með grófum reikningi má segja að þetta sé rétt en þó með þeim fyrirvara að ég hef ekki séð þær tölur settar fram með þessum hætti öðruvísi en að ég set þetta fram hér sjálf með því að horfa á þessar tölur. Því er ljóst að taka þarf sérstaklega á kostnaði heimilanna vegna lyfjamála. Í því greiðsluþátttökukerfi sem átti að taka gildi núna 1. apríl, en hefur verið lagt til hliðar af núverandi heilbrigðisráðherra, er það óbreytt að verulegt ójafnræði er hjá heimilum vegna kostnaðar við heilbrigðisþjónustu.

Í gögnum sem ég hef fengið frá hv. þm. Pétri Blöndal þar sem gögnum var safnað saman frá öllum heimilum landsins um kostnað við heilbrigðisþjónustu utan tannlæknakostnaðar kemur fram — talað er um að milli 40–50 þúsund fjölskyldur séu í landinu — að 11.500 fjölskyldur hafi greitt meira en 100 þús. kr. á árinu 2007 vegna heilbrigðisþjónustu og þá er tannlæknakostnaður undanskilinn, en inni í þessu er lyfjakostnaður. Um þúsund fjölskyldur hafa greitt meira en 200 þús. kr., 500 fjölskyldur hafa greitt meira en 250 þús. kr., 100 fjölskyldur hafa greitt meira en 340 þús. kr., 20 fjölskyldur hafa greitt meira en 480 þús. kr., og fimm fjölskyldur meira 760 þús. kr. Því er ljóst að það greiðsluþátttökukerfi sem við búum við núna þarfnast endurskoðunar og meðan þeirri vinnu er ekki lokið og ákvarðanir teknar í kjölfarið á því verður þetta ójafnræði áfram í kostnaði fjölskyldna í landinu vegna heilbrigðisþjónustu.

Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Pétur H. Blöndal muni koma hér fram á eftir með sína ræðu og ræða frekar um nýtt greiðslukerfi, en eitt af því sem því er ætlað að gera er að einfalda kerfið. Eins og ég nefndi áðan er það mjög flókið og víða er mjög mismunandi greitt fyrir meðferð og rannsóknir innan kerfisins. Þá á ég sérstaklega við að á sjúkrahúsum, ef sjúklingur er lagður inn, borgar hann ekki fyrir meðferðina en ef hann er ekki lagður inn getur hann þurft að greiða allt að 25 þús. kr.

Það er líka mikilvægt markmið að hindra sóun í kerfinu en ljóst er að töluverð sóun er í heilbrigðiskerfinu, m.a. varðandi lyfjamál. Þannig vill til að ég hélt í haust erindi á morgunverðarfundi Rannsóknarstofnunar um lyfjamál þar sem m.a. var verið að velta fyrir sér hvort nýta mætti betur skattfé til lyfjamála. Ég talaði m.a. um að greiðsluþátttökukerfið getur haft áhrif á sóun lyfja en eins og kom ... (Forseti hringir.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir að gefa mér hljóð, ég hélt að hann ætlaði að stoppa mig, en þakka honum fyrir, ég hélt að ég væri kannski að tala við sjálfa mig og þakka hv. þingmönnum fyrir að gefa mér hljóð.

Ljóst er að það greiðsluþátttökukerfi sem var við lýði vegna lyfjakostnaðar stuðlaði að ákveðinni sóun, þ.e. í gangi voru afsláttarkjör til sjúklinga, afsláttarkjör sem leiddu til þess að eftir því sem sjúklingurinn fékk stærri skammt afgreiddan því minna þurfti hann að greiða. Það var því ákveðin sóun þarna í gangi og vissulega hægt að spara eitthvað af þeim 16 milljörðum sem fóru á árinu 2007 til lyfjamála. Ég vil nefna að lyfjakostnaður Tryggingastofnunar ríkisins á árinu 2008 var 9,3 milljarðar og samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2009 er hann tæpir 10 milljarðar. Því er mjög líklegt að ef haldið yrði sama hlutfalli milli heimilanna og ríkisins færi lyfjakostnaður landsmanna hátt yfir 20 milljarða á þessu ári. Það eru gríðarlegar upphæðir. Það sem einnig er ákveðið áhyggjuefni er að neysla lyfja, sérstaklega geðlyfja, hefur aukist verulega, hún hefur aukist jafnt og þétt. Við hljótum því að spyrja okkur hvort ákveðin oftrú sé á gagnsemi lyfja, hvort ákveðin sókn sé í lyf. Þó að greiðsluþátttaka almennings vegna lyfjakaupa hafi aukist á undanförnum árum hefur hún ekki náð að hemja aukna neyslu í lyfjum.

Með þessu er ég ekki að draga í efa gildi lyfja, öðru nær, en við hljótum að horfa á t.d. aukna neyslu á geðlyfjum, þar eru önnur ráð til sem geta ekki síður verið virk og krefjast ekki inngripa með lyfjum, þá á ég m.a. við sálfræðilega hjálp. Við þurfum að átta okkur á að lyfjakostnaður er mikill og lyf eru ekki í öllum tilvikum lausn á vanda.

Á síðustu árum höfum við jafnframt gert breytingar á lyfjalögum sem gerir það að verkum að betur er hægt að fylgjast með lyfjaávísunum lækna, bæði með lyfjagagnagrunni og með auknu eftirliti landlæknis. Í vetur spurði ég hæstv. heilbrigðisráðherra um notkun á lyfjagagnagrunninum og hvernig hann hefði gagnast. Kom í ljós að lyfjagagnagrunnurinn felur í sér slíkar upplýsingar að það hefur leitt til aukins eftirlits landlæknis með lyfjaávísunum lækna og þar liggja jafnframt upplýsingar sem læknar hafi aðgang að og geti þá metið hegðun sína varðandi lyfjaávísanir við lyfjaávísanahegðun annarra lækna og það í sjálfu sér hefur ákveðið gildi.

Einnig var á síðasta hausti tekin ákvörðun um það með breytingu á lyfjalögum að setja bindandi lyfjalista hjá heilbrigðisstofnunum sem getur stuðlað að betri nýtingu lyfja og minni útskiptingu á lyfjum. Það hefur því ýmislegt verið gert á síðustu missirum til að hemja þróun í aukinni lyfjanotkun og auknum lyfjakostnaði. En einn sá þáttur sem ég hef sérstaklega lagt mig eftir að skoða er meðferðarheldni, þ.e. hvernig hægt er að auka líkur á að sjúklingar nýti lyfin rétt. Það hefur m.a. verið metið að aðgerðir til að auka líkur á að sjúklingurinn taki rétt lyf á réttum tíma og samkvæmt þeim ábendingum sem gefnar eru til að sporna við einkennum sjúkdóma eða við sjúkdómnum sjálfum, hafa meiri áhrif á lýðheilsu en nokkur nýjung í sértækri læknisfræðilegri meðferð. Þetta var niðurstaða Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar á árinu 2003. Með þeim upplýsingum sem ég hef yfir að ráða kemur fram að á bilinu 30–50% sjúklinga, sem eru t.d. með háþrýsting, nota lyfin rétt.

Fyrrnefnd ræða mín um breytingu á lyfjalögum varðandi frestun á ákvæði um bann á afsláttum í smásölu lyfja varð tilefni þess að ég taldi ástæðu til að ræða um lyfjamál á hinu háa Alþingi og leggja áherslu á að skoða þarf með meiri alvöru en núverandi heilbrigðisráðherra gerir nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúklinga, því að það hefur sýnt sig að það kerfi sem nú er við lýði veldur því að ákveðnir hópar sjúklinga, ekki síst þeir sem eru langveikir, greiða margir hverjir óhemjumikinn kostnað vegna heilbrigðisþjónustu og er þá ekki tannlæknakostnaður meðtalinn. Ég hvet því hæstv. heilbrigðisráðherra til þess að taka upp þær hugmyndir sem voru í smíðum undir forustu hv. þm. Péturs H. Blöndals til að koma á réttlátara og einfaldara greiðsluþátttökukerfi þar sem m.a. lyf eru hluti af slíku kerfi.