136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

lyfjalög.

445. mál
[23:57]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að leiðrétta hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson, ég var aldrei varaþingmaður hjá Alþýðuflokknum en ég hætti í Alþýðuflokknum út af óréttlátu fiskveiðistjórnarkerfi sem Alþýðuflokkurinn treysti sér til að styðja og Samfylkingin hefur stutt að stærstum hluta. Með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn í 18 eða 19 mánuði hefur Samfylkingin stutt óréttlátt fiskveiðistjórnarkerfi sem er að mínu mati ekki boðlegt.

Ef hann vill vita hvar ég flokkast í pólitík er ég kannski fyrst og fremst lýðræðissinni og mannréttindasinni og kannski hægri jafnaðarmaður í þeim skilningi en það vantar jafnaðarmenn á Alþingi Íslendinga. Jafnaðarmannaflokkur, sem þykist vera jafnaðarmannaflokkur en tekur þátt í því að brjóta mannréttindi á fólki, eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert, og virðir ekki mannréttindanefndarálit Sameinuðu þjóðanna, það er auðvitað mjög alvarlegt mál. Það eru ekki bara Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sem hafa gert það, Samfylking og Vinstri grænir treysta sér heldur ekki til þess að virða mannréttindi og reyna að koma sér undan því.

Það er dálítið gaman að því í þessari umræðu í kvöld að það eru nánast engir frá stjórnarflokkunum í salnum — inn kemur hæstv. forseti þingsins. (Gripið fram í.) Á eftir munum við ræða sjávarútvegsmál og við horfum upp á að eins og er eru fjórir þingmenn í salnum.