136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

lyfjalög.

445. mál
[23:59]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá fengum við upplýsingar frá hv. þm. Grétari Mar Jónssyni um hvar hann stendur í pólitík og ef ég skil hv. þingmann rétt er hann hægri krati, jafnaðarmaður. Hann upplýsti líka — og hér erum við að tala um innanbúðarmann úr vinstri flokkunum — að það væru ekki lengur neinir jafnaðarmenn á þingi, í það minnsta ekki fyrir Samfylkinguna og Vinstri græna og það er auðvitað athyglisvert að heyra það.

Sjálfstæðisflokkurinn er enginn jafnaðarmannaflokkur og hefur aldrei verið. Hann byggir á tvennu, hann byggir á því að við teljum að hér búi ein þjóð í einu landi og við teljum að hagsmunir þjóðarinnar fari saman, undir kjörorðinu „stétt með stétt“. Þarna erum við í grundvallaratriðum ósammála þeim aðilum sem hafa talað fyrir sósíalisma eða jafnaðarstefnu og sömuleiðis er okkar stefna byggð á kristnu siðferði þar sem segir einfaldlega að okkur er ekki sama um okkar minnstu meðborgara. Á sama hátt erum við fylgjandi frelsinu og því frelsi fylgir ábyrgð og það er kannski eitthvað sem nokkuð hefur skort á á undanförnum árum og er eitthvað sem þarf að laga. Hins vegar er frelsi ekki bara forsenda framfara, það er líka forsenda lífshamingju og fyrir því berjumst við.

Mér þykir athyglisvert að heyra fyrrverandi forustumann í Alþýðuflokknum, ég held að ég megi fullyrða það, í það minnsta vissi ég að hv. þm. Grétar Mar Jónsson væri alþýðuflokksmaður án þess að hafa nokkurn tíma séð það félagatal, (Forseti hringir.) fullyrða að það séu engir jafnaðarmenn í vinstri flokkunum á þinginu í dag.