136. löggjafarþing — 116. fundur,  26. mars 2009.

lyfjalög.

445. mál
[00:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg útilokað að halda því fram að sjálfstæðismenn hafi ekki í gegnum tíðina borið hagsmuni allra stétta fyrir brjósti. (GMJ: Eigum við …?) Virðulegi forseti. Ég endurtek, vegna þess að hv. þingmaður greip fram í fyrir mér, að sjálfstæðismenn hafa ávallt borið hag allra stétta fyrir brjósti, ávallt. Hér vísar hv. þingmaður í ákveðna útfærslu á fiskveiðistjórnarkerfinu. Fiskveiðistjórnarkerfið á það sameiginlegt með lýðræðinu og ýmsu öðru að þetta er algerlega meingallað kerfi. (GMS: Er lýðræðið gallað?) Hv. þingmaður, lýðræðið er mjög gallað. Winston Churchill nefndi þetta ágætlega, lýsti þessu þannig að lýðræðið væri gallaðasta kerfi sem mannskepnan hefði fundið upp, ef undan væru skilin öll hin. Nákvæmlega það sama á við um fiskveiðistjórnarkerfið, það sem vantar er hins vegar annar og betri valkostur. Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni varðandi leiguna, það eitt og sér er afskaplega gallað og mér finnst virkilega koma til greina að taka á því þótt væri ekki annað því að ég held að sá þáttur kerfisins sem er í gangi núna kalli bæði á sóun og óréttlæti. (Gripið fram í.)

Virðulegur forseti. Þetta er nokkuð sem ég hef margoft haldið fram á þingi og í sjávarútvegsnefnd þingsins þannig að það er ekkert nýtt í því og ég veit að þetta á mjög vel við í umræðum um lyfjamál.

Varðandi landbúnaðarkerfið held ég að fáir flokkar hafi haldið uppi eins mikilli gagnrýni á landbúnaðarkerfið og sjálfstæðismenn. Enn og aftur vek ég athygli á því að fyrrverandi forustumaður (Forseti hringir.) úr Alþýðuflokknum nefnir að hér eru engir jafnaðarmenn lengur í vinstri flokkunum á Íslandi, virðulegur forseti.