136. löggjafarþing — 116. fundur,  26. mars 2009.

lyfjalög.

445. mál
[00:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum lítið mál. Reyndar vil ég benda herra forseta á að klukkan er komin fram yfir miðnætti og við gætum farið að velta vöngum yfir því hvort ástæða sé til að halda umræðunni mikið lengur áfram.

Ég ætla að tala um þetta frumvarp sem lætur lítið yfir sér og felst eiginlega í því að fresta gildistöku ákveðins ákvæðis til 1. janúar 2010. Á bak við þetta eru hugmyndir um nýja greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðisþjónustunni þannig að í raun og veru sé verið að fresta þeirri hugsun þannig að það megi taka hana upp seinna.

Ef ég á að fara í gegnum það mál allt saman skipaði hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra nefnd fyrir einu og hálfu ári, haustið 2007, og fól henni að breyta greiðsluþátttöku almennings í lyfjum og almennt í heilbrigðiskerfinu. Nefndin tók til starfa og ég hafði þá hugmynd að líta á heilbrigðiskerfið frá sjónarhorni notandans í heild sinni. Það er hann sem lendir í áföllum eða greiðslum á meðan núverandi kerfi horfir á heilbrigðiskerfið og þátttöku þess eftir ýmsum sjónarmiðum, m.a. sjónarmiðum sjúkdóms. Sumir sjúklingar með ákveðna sjúkdóma borga ekki neitt eða lítið, t.d. krabbameinssjúklingar, en aðrir borga mikið, t.d. gigtarsjúklingar og hjartasjúklingar. Þá er líka litið á þetta frá sjónarhorni lyfja. Sum lyf eru ókeypis, S-merkt lyf, önnur lyf kosta mikið o.s.frv. Svo er líka horft á þetta frá sjónarhorni afgreiðslu þannig að lyf sem er afgreitt í þremur skömmtum er miklu dýrara en lyf sem er afgreitt í einum skammti, þ.e. 600 pillur geta verið miklu ódýrari en þrisvar sinnum 200 pillur.

Allt þetta kerfi hefur óskaplega mörg neikvæð áhrif, t.d. þetta síðasta. Það leiðir til sóunar vegna þess að læknirinn sem veit af þessu og hugsar um hag sjúklingsins skrifar þá 600 pillur þó að sjúklingurinn þurfi kannski ekki nema 150 og restinni er þá bara hent.

Kerfið er líka óskaplega dýrt í vinnslu vegna þess að þeir sem eru að afgreiða lyf, vinna á spítölum og annað slíkt þurfa að læra á mjög flókið kerfi. Það voru gefin út lyfjakort, gul, rauð, blá, brún og ég veit ekki hvað, og allt heilbrigðisstarfsfólk eða þeir sem sjá um móttöku greiðslna og hvernig á að fara með greiðslur og kostnað þurfa að þekkja allt þetta geysilega flókna regluverk. Þessi á að borga svona af því að hann er með þetta kort, hinn á að borga hinsegin af því að hann er með öðruvísi litt kort. Svo eru náttúrlega sumir sem hafa engin kort, þurfa þá að sækja um o.s.frv. Hins vegar situr í Tryggingastofnun her af fólki við að gefa út þessi kort, tékka á þeim og fara eftir þessu. Allt er þetta mjög dýrt í framkvæmd.

Það sem er verra í þessu er að þegar fólk kemur inn í svona kerfi sem það í rauninni skilur ekki, almenningur skilur mjög lítið í því og í rauninni ekki neitt, hverfur öll kostnaðarvitund. Maður kemur til augnlæknis, eins og ég lenti í, fær reikning upp á 8.000 kr. fyrir heimsóknina og Tryggingastofnun borgar 4.362 kr. eða eitthvað svoleiðis. Ég veit ekkert um það þegar ég kem inn að ég eigi að borga 8.000 kr. og síst af öllu vissi ég að ég fengi styrk frá ríkinu upp á rúmar 4.000 kr. til að mæta þessu eina áfalli sem ég hef lent í í tvö eða þrjú ár. Ég fékk þarna sem sagt styrk frá ríkinu og tel mig ekki í neitt sérstaklega mikilli þörf fyrir hann. (Gripið fram í: Þáðirðu hann?) Vegna þess að ég veit ekki hvað ég kem til með að borga og ég skil það ekki gerir þetta það að verkum að ég er í rauninni ekkert að pæla í þessu, ég bara tek því sem að mér er rétt og öll kostnaðarvitund hverfur. Ef ég hefði rekist á annan augnlækni sem hefði tekið 6.000 kr. hefði ég ekkert endilega valið hann af því að ég vissi ekki hvort ég fengi greiddar til baka 3.000 kr., 8.000 kr. eða hvað það er. Ég fæ auðvitað ekki 8.000 kr. til baka ef kostnaðurinn er 6.000 en ég gæti hugsanlega hafa fengið 5.000. Vegna þess hvað þetta er flókið veltir fólk ekki fyrir sér samkeppnissjónarmiðum og verðskynið hverfur. Það er mjög margt þunglamalegt í þessu kerfi. Meira að segja greiðsluþátttaka í lyfjum er kennd við háskólann, þetta er orðið það flókið.

Þegar ég byrjaði að kynna hugmyndir mínar um þannig kerfi að það væri litið á allt heila kerfið frá sjónarhorni sjúklingsins mættu þær mjög fljótt mjög miklum velvilja alls staðar. Ég heyrði ekki einn einasta mann hafa á móti því fyrr en í ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmundar Jónssonar þann 5. febrúar, þá heyrði ég sjónarmið á móti þessu sem ég kem inn á á eftir.

Það var sérstaklega mikill velvilji í apótekum. Menn sáu fyrir sér verulega mikla einföldun í vinnuferlum. Það var mikil ánægja með þetta í heilbrigðisstofnunum. Þannig er í dag að maður sem leggst inn á spítala borgar ekki neitt. Hann fær rúm, herbergi, fæði o.s.frv. og borgar ekki neitt. Ef hann fer hins vegar í svokallað ferliverk sem er sama þjónustan, hann er jafnvel skorinn upp í gegnum kviðsjárskoðun, og fer svo heim eftir aðgerð borgar hann helling. Þá borgar hann sérfræðinginn, aðgerðina og alls konar ferliverk sem kosta helling og fær minni þjónustu, hann fær ekki herbergi, ekki rúm og ekki mat. Samt borgar hann meira. Ef hann er svo „heppinn“ að vera lagður inn borgar hann ekki neitt. Þetta finnst heilbrigðisstarfsmönnum mjög erfitt að útskýra og framkvæma af því að þetta er svo hræðilega óréttlátt. Það hefur meira að segja frést af því að börn hafi verið lögð inn til að spara foreldrunum þann kostnað sem ég nefndi og af því að það er betra fyrir barnið að fara heim og það þarf ekki að liggja inni fer það heim en er engu að síður með herbergi sem er mjög furðulegt og þýðir í rauninni að herbergið er tekið frá og ekkert notað. Það er líka ofnotkun á heilbrigðisþjónustunni.

Þetta er sem sagt mjög slæmt. Eiginlega allir vildu taka upp einfaldara kerfi. Ég heyrði engar raddir um annað neins staðar. Þetta var kynnt mjög ítarlega fyrir sjúklingasamtökum. Nefndin vann, vil ég segja, mjög ítarlega, talaði við sjúklingasamtök aftur og aftur, svaraði fyrirspurnum, það voru haldin fræðsluerindi um þetta hjá lyfjafræðingum, hjá Öryrkjabandalaginu og mjög víða, þeir sem óskuðu eftir fengu fræðslu um þetta nýja kerfi. Hugmyndin var sú að settur yrði í gang einhver gagnabanki einhvers staðar sem læsi kennitölu og kostnað manna af ákveðinni aðgerð og eitthvert kennileiti um hvers eðlis kostnaðurinn væri, hvort það væri sjúkrabíll, lyf, sérfræðingur eða heimilislæknir eða hvað það nú væri, og kerfið mundi svo segja: Þessi maður er staddur svona og hann er búinn að borga þetta mikið áður og nú á hann að borga þetta mikið eða ekki neitt. Það kemur sjálfvirkt. Menn sáu fyrir sér mjög mikla einföldun í öllu þessu kerfi.

Kerfi voru skoðuð í Danmörku og Svíþjóð sem eru dálítið flókin en með tiltölulega lítilli breytingu náðist fram hugmynd sem er eftirfarandi: Menn borga að fullu á hverju 12 mánaða tímabili upp að ákveðinni upphæð, við skulum segja 30.000, maður borgar það bara að fullu hvenær sem það kemur til innan tímabilsins. Síðan borgar hann 25% eða 20% af því sem umfram er en þó aldrei meira en 60.000 á ári, á þessum 12 mánuðum. Þetta er ein hugmynd sem kom upp og þeir stuðlar, að borga upp að 20.000 kr. að fullu, eða 30.000 kr. eftir atvikum, eru fengnir þannig að kerfið kosti sjúklinginn 17% af heildarkostnaði. Þetta var eitt markmiðið með breytingunni sem nefndin setti sér. Sú kerfisbreyting á ekki að breyta kostnaðarþátttöku ríkisins í öllu heila dæminu. Í lyfjum er kostnaðarþátttakan 66%, í lyfjunum einum, en í heilbrigðisþjónustunni í heild sinni er hún 83% og sjúklingurinn borgar 17%.

Fyrst vann nefndin þannig að hún tæki bara lyfin. Þá kom upp dálítið merkilegt sem hæstv. heilbrigðisráðherra ætti að hafa í huga núna þegar hann ætlar að taka lyfin fyrst. Það er nefnilega þannig að vissir sjúklingahópar borga ekki lyf, krabbameinssjúklingar og sykursýkissjúklingar, ég held að ég fari rétt með, en þeir borga helling af öðrum kostnaði. Krabbameinssjúklingar þurfa t.d. að borga rannsóknir, myndatökur og alls konar. Það er ekki lítið, herra forseti. Ef lyfin yrðu eingöngu tekin þyrfti þetta fólk að borga lyfin upp að 40.000 kr. eða hvað það nú er, það er reyndar töluvert lægra fyrir lyfin ein sér, og borga hinn kostnaðinn áfram. Út af þessu ákvað nefndin að taka allan kostnaðinn fyrir í einu sem tafði reyndar starf nefndarinnar eitthvað. Þetta er meginhugsunin.

Svo var reyndar rædd önnur hugmynd frá mér um að menn borguðu á hverju sex mánaða tímabili aldrei umfram ákveðin mörk, fljótandi tímabili sem breyttist í stöðugt. Það er dálítið flóknara en sýndi sig töluvert miklu réttlátara. Þá erum við að tala um í heildarkerfinu eitthvað um 5.000–6.000 kr. á mánuði, það borgaði enginn meira. Maður sem veiktist í fyrsta skipti borgaði þá sex sinnum 6.000, þ.e. 36.000 kr., en svo borgaði hann ekki meira umfram 6.000 kr. á mánuði eftir það. Það bættist alltaf við nýr og nýr mánuður eftir því sem á leið.

Þetta eru sem sagt þær tvær leiðir sem nefndin ræddi. Hún vann mjög kerfisbundið, byrjaði á því að afla gagna frá lyfjaverslunum, við fengum heilmikil gögn um það hvað hver einasti Íslendingur hefði greitt í lyf í hverjum einasta mánuði og það var notað til að finna út hve háir stuðlarnir þyrftu að vera. Það voru um 230.000 manns sem komu að kerfinu. Við náðum nánast öllu landinu.

Þá verður að segjast að samskipti við Persónuvernd voru afskaplega erfið. Hún gerði ansi miklar kröfur að mínu mati, ja, ég skildi þær a.m.k. ekki, ég sá ekki hvað var svona ógurlega hættulegt í þessu dæmi og skildi ekki hvað tortryggnin var mikil gagnvart mér. Ég mátti t.d. ekki taka að mér að verða ábyrgðarmaður fyrir dæmið, mér var ekki treyst. Krafa var gerð um að heilbrigðisráðuneytið yrði ábyrgðaraðili og alls konar furðulegar kröfur sem gerðu það að verkum að öflun gagna tafðist ansi mikið, um fleiri mánuði og kostaði miklu meira en ella hefði verið, sennilega nokkrum milljónum. Persónuvernd taldi eitthvað stórhættulegt að vita hvað maðurinn hafði keypt af lyfjum í ákveðnum mánuði, ekki í hvaða apóteki eða hvaða lyf, heldur bara að hann hefði keypt lyf fyrir 6.300 kr. í apríl 2007. Þetta var svo mikið leyndarmál að það þurfti að gera allt sem mögulegt var til að ekki væri hægt að rekja það til persónu. Inn í þetta komu náttúrlega líka samkeppnissjónarmið á milli apótekanna þannig að því þarf að halda líka til haga. En mér fannst tortryggnin ganga ansi langt.

Þessara gagna var aflað. Svo fórum við út í að afla gagna frá Rauða krossinum um sjúkraflutninga, frá spítölunum, Landspítalanum um allar innlagnir og allt sem sjúklingurinn hafði kostað og borgað. Við fengum sem sagt upplýsingar um þetta, ekki alveg fullkomlega yfir alla en við fengum ansi mikið magn af gögnum. Það kom í ljós að það er töluvert margt fólk sem borgar bara umtalsvert mikið, herra forseti. Það kom t.d. í ljós að 500 manns borguðu á árinu 2007 yfir 250.000 kr. vegna kostnaðar í heilbrigðisþjónustu þrátt fyrir öll þessi kort, alla vega lit, og þrátt fyrir allan þennan her af fólki sem var að vinna í þessum kortum og reikna út greiðsluþátttöku og ég veit ekki hvað og hvað.

Kerfið í dag er afskaplega ófélagslegt, það er hreinlega óréttlátt. Nú veit ég ekkert um þetta fólk, þessa 500 aðila, hvernig staða þess er, ég veit ekkert hvort það er tekjuhátt eða tekjulágt fólk, á miklar eignir eða ekki. (Gripið fram í.) Maður veit í rauninni ekkert um það, en ég hef grun um það og við höfum upplýsingar um að góður hluti af þeim sé öryrkjar og ellilífeyrisþegar. Þær upplýsingar liggja fyrir, nefndin á eftir að skila af sér og ég fer í gegnum það af hverju það er.

Ef tekið yrði upp nýtt kerfi væri tryggt að enginn borgaði umfram ákveðna upphæð, t.d. 60.000 kr., sem mér finnst mjög réttlátt. Þeir sem eru sjaldan veikir og fá styrki í dag, eins og ég nefndi áðan með gleraugun, mundu bara borga það að fullu af því að þeir ná ekki 60.000 kr. á 12 mánuðum eða 36.000 kr. á hverju sex mánaða tímabili. Aðrir sem eru stöðugt veikir, eins og gigtarsjúklingar sem taka stöðugt lyf, kannski í áratugi, eru tryggðir fyrir því að borga aldrei meira en 60.000 kr. á hverjum 12 mánuðum eða ef við tökum dansk/sænsku leiðina 6.000 kr. á mánuði, eða 7.000 kr. á mánuði ef við förum þá leið sem ég stakk upp á. Fólk yrði tryggt miklu betur en er í dag.

Þá er spurning um örlög þessa verkefnis. Eins og kunnugt er varð hrun hérna í byrjun október. Þá hafði verið meiningin að þetta kerfi tæki gildi um áramót. Við hrunið fóru menn að sinna einhverju allt öðru en þessu, þar á meðal ég, undirritaður. Ég fór að sinna einhverju allt öðru, ég var formaður efnahags- og skattanefndar og það var ansi mikið að gera þannig að þetta verkefni datt upp fyrir út af hruninu. Svo fór ég í gang með það í desember og reyndi að koma því á því að ég taldi það sérstaklega mikilvægt, einmitt eftir kreppuna. Þegar fólk er í miklum vandræðum þarf að tryggja það enn frekar en núverandi kerfi gerir. Ég var eiginlega kominn með niðurstöðu nefndarinnar, það munaði kannski viku eða tveim vikum að nefndin hefði lokið störfum. Þá urðu stjórnarskipti. Þá var allt saman upp í loft 1. febrúar og enginn vissi í rauninni hvaða vilji væri til að halda þessu fram.

Síðan var fyrirspurn þann 5. febrúar þegar sem hv. þm. Ásta Möller spyr hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmund Jónasson um þetta. Þá segir hann að þetta sé gott kerfi og gott starf en sá „þáttur í þessu starfi hefur verið mjög að mínu skapi,“ þ.e. að dreifa kostnaðinum. „Hins vegar verð ég að segja að umræðan hefur beinst í farveg sem ég hef verið mjög gagnrýninn á, þ.e. að búa til ákveðinn grunn en opna síðan á markaðsvætt kerfi. Þetta er nokkuð sem ég hef verið gagnrýninn á. Ég vil taka það besta úr þessu starfi og beina því í ásættanlegri farveg en þetta starf hefur verið að þróast í.“

Þarna kemur einhver ótti í hæstv. ráðherra — sem var í nefndinni — og starfið var slegið af. (Forseti hringir.) Nú ætlar hann að taka bara lyfin einhvern tímann.