136. löggjafarþing — 116. fundur,  26. mars 2009.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[00:27]
Horfa

Frsm. sjútv.- og landbn. (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða með síðari breytingum

Málið er flutt af sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þingsins. Ástæða þess að ég mæli fyrir frumvarpinu er sú að formaðurinn er veikur og varaformaðurinn er ekki lengur hluti af stjórnarflokkunum heldur genginn yfir í annan flokk, sem ég geri mér ekki grein fyrir hvort styður málið lengur. En ég tók að mér að flytja þessa ræðu, m.a. vegna þess að hér er um atvinnumál að ræða og þau vekja alltaf áhuga minn og ég tel að það þurfi að koma þessari starfsemi inn í ákveðinn ramma sem þetta frumvarp gengur út á að gera.

En hæstv. forseti. Í frumvarpinu er lagt til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á lögum um stjórn fiskveiða:

Ráðherra fái heimild til að leyfa takmarkaðar veiðar í fræðsluskyni.

Settar verði ítarlegar reglur um frístundaveiðar sem fara fram á vegum ferðaþjónustuaðila.

Leyfilegum heildarafla í karfa verði skipt upp í veiðar úr gullkarfa og djúpkarfa.

Viðamesta breytingin lýtur að skipan frístundaveiða.

Frístundaveiðar við Ísland er nýr vaxandi þáttur í ferðaþjónustu hér við land en veiðar á frístundafiskibátum eins og þekkjast í dag hófust að marki á Vestfjörðum árið 2006. Fyrir liggja allnákvæmar upplýsingar um afla. Heildarveiði þessara báta var um 200 tonn árið 2007 og var þorskafli þar af um 180 tonn. Árið 2008 var heildaraflinn um 250 tonn og var þorskafli þar af um 220 tonn. En fjöldi skráðra frístundabáta nú er 43. Nokkrir aðilar sem selja skoðunarferðir á sjó bjóða einnig upp á sjóstangaveiði samhliða skoðunarferðunum, annaðhvort sem hluta afþreyingar í skoðunarferðum eða sem sérstakar veiðiferðir á sjóstöng. En líkt og með frístundafiskveiðarnar hefur slík ferðaþjónusta verið vaxandi undanfarin ár.

Þann 20. febrúar 2008 skipaði þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Einar K. Guðfinnsson starfshóp sem samkvæmt skipunarbréfi hafði það hlutverk að fara yfir starfsumhverfi frístundabáta og greina hvort og með hvaða hætti unnt væri að taka tillit til sérstöðu útgerðar frístundaveiðibáta með hliðsjón af gildandi ákvæðum fiskveiðistjórnarlaga um nýtingu og verndun nytjastofna sjávar. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni til ráðherra í janúar 2009 og þess má geta að formaður starfshópsins var hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir.

Við samningu þessa frumvarps var að miklu leyti tekið mið af niðurstöðum og tillögum starfshópsins. Meginþættir tillagna nefndarinnar eru að veiðar frístundabáta verði leyfisbundnar og að þeir fái mjög takmarkaða heimild til þess að veiða fisk sem ekki reiknist til aflamarks þess báts sem hann veiðir. Í starfi nefndarinnar var uppi sú hugmynd að á hvert færi á báti sem leyfi hefði til veiða samkvæmt 1. tölul. 4. mgr. 6. gr., samanber 2. gr. frumvarpsins, mætti veiða fimm fiska daglega en bátum sem leyfi hefðu samkvæmt 2. tölul. 4. mgr. sömu greinar væri heimilt að landa 10 kg utan kvóta daglega en eins og áður er sagt ræðst það af mati ráðherra og er þetta aðeins nefnt hér til skýringar. Þess má geta, hæstv. forseti, að þau ákvæði sem ég fór yfir núna eru umdeild og þess vegna hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hug á því að fá þetta mál aftur til nefndarinnar og fjalla frekar um það á fundi í fyrramálið.

Leyfi til frístundaveiða samanber 3. mgr. eru tvenns konar. Það er í fyrsta lagi leyfi til veiða tiltekins fjölda fiska af kvótabundnum fisktegundum á hvert handfæri eða sjóstöng dag hvern og reiknast sá afli ekki til aflamarks viðkomandi báts. Ekki er heimilt að nota fleiri en fimm sjóstangir og/eða færarúllur samtímis. Óheimilt er að selja eða fénýta á annan hátt afla sem fæst við veiðar sem heimilar eru samkvæmt þessum tölulið.

Í öðru lagi er það leyfi til veiða sem takmarkast af aflamarki eða krókaaflamarki viðkomandi báts.

Ráðherra ákveður með reglugerð hversu miklu magni hverjum báti sem stundar veiðar samkvæmt þessum tölulið er heimilt að landa daglega af ákveðnum kvótabundnum tegundum, sem ekki reiknast til aflamarks/krókaaflamarks viðkomandi báts. Óheimilt er að selja eða fénýta á annan hátt afla sem fæst við veiðar sem heimilar eru samkvæmt þessum tölulið.

Innan sama fiskveiðiárs er einungis heimilt að veita báti leyfi annaðhvort samkvæmt 1. tölul. 4. mgr. eða 2. tölul. 4. mgr.

Ekki er heimilt innan sama fiskveiðiárs að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni á báti sem fengið hefur leyfi til frístundaveiða. Þó er Fiskistofu heimilt að veita bátum tímabundin leyfi til frístundaveiða sem gildi fyrir tímabilið 1. maí til 31. ágúst, enda stundi þeir ekki veiðar í atvinnuskyni innan þess tímabils.

Ráðherra setur í reglugerð frekari skilyrði og reglur um frístundaveiðar, þar með talið um skil á skýrslum vegna veiða frístundaveiðibáta og á sjóstangaveiðimótum.

Við 1. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Til að styðja við ferðaþjónustu í byggðarlögum þar sem gerðir eru út bátar til frístundaveiða. Í öðru lagi bætist við ný málsgrein, svohljóðandi: Ráðherra skal áætla fyrir hvert fiskveiðiár það heildaraflamark sem ráðstafað er til frístundaveiða.

Þarna var ég að fara með ákvæði sem eru í 3. gr.

En í 5. gr. kemur fram að frá og með fiskveiðiárinu 2009/2010 skal skipta leyfilegum heildarafla í karfa upp í gullkarfa og djúpkarfa.

Hæstv. forseti. Eins og ég nefndi þá mun nefndin fara yfir þetta mál frekar á fundi í fyrramálið þannig að ég mælist til þess að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. nefndar að lokinni þessari umræðu.