136. löggjafarþing — 116. fundur,  26. mars 2009.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[00:52]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál var tekið á dagskrá í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fyrir u.þ.b. hálfum mánuði. Ég gerði strax athugasemdir við þætti í þessu frumvarpi, m.a. hvað sneri að karfa og rækju.

Þegar málið var aftur tekið fyrir á mánudaginn var alveg skýr afstaða mín á móti þessu frumvarpi. Ég boðaði það en ég fagnaði því samt að frumvarpið færi inn í þingið þannig að hægt væri að ræða sjávarútvegsmál við þingmenn úr öðrum flokkum eins og Sjálfstæðisflokknum sem þjónka sægreifunum stanslaust og hafa alltaf gert, bæði ráðherrar og einstaka þingmenn. Fyrrverandi formaður í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd gerði það svo vel á meðan hún var formaður, síðustu 18–19 mánuðina, og hefur þjónkað sægreifunum sýknt og heilagt í öllu sem snýr að sjávarútvegsmálum.

Það má benda á breytinguna úr 20% í 33% geymsluréttinn. Það má tala um veiðileyfagjaldið sem var lækkað úr 1.100 milljónum niður í 400 milljónir og það má taka eitt og annað sem hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir hefur gert. Það er þörf á að ræða þetta því að það sýnir og sannar hvers lags vitleysa er í gangi varðandi íslenskan sjávarútveg og íslenska fiskveiðistefnu þegar komið er með þetta mál með þessum hætti í þingið. Þetta var alveg ljóst á síðasta fundi sem hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir var á með mér í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, vilji minn var alveg skýr og það fór ekki fram hjá neinum sem þar var inni að ég var á móti þessu frumvarpi og vildi ekki samþykkja nein atriði í því.