136. löggjafarþing — 116. fundur,  26. mars 2009.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[01:14]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég óskaði eftir því við hv. formann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Atla Gíslason, að hann ræddi frjálsar handfæraveiðar samhliða þessu frumvarpi. Það var látið líta þannig út að þetta frumvarp ætti að vera samið af nefnd sem hv. þm. Einar Guðfinnsson skipaði meðan hann var sjávarútvegsráðherra. Svo kemur í ljós hér hjá hv. þingmanni sem var formaður í nefndinni, Arnbjörgu Sveinsdóttur, að frumvarpið var samið í ráðuneytinu þrátt fyrir að hún væri formaður í nefnd, í starfshópi sem skipaður var af hv. þm. Einari Guðfinnssyni um þessi mál.

Það skrýtna við þennan starfshóp er að hann leitaði álits tveggja manna sem eru í þessum ferðamannageira en hann hafði ekki samráð við hvalaskoðunarútgerðir eða fuglaskoðunarútgerðir sem eru samhliða með sjóstangaveiði. Á Suðurnesjum hefur verið gert út á sjóstangaveiði í sennilega 15 ár að minnsta kosti, litla báta, og þeir hafa verið líka í hvalaskoðun og fuglaskoðun og ýmsu. Þetta eru auðvitað mjög óvönduð vinnubrögð hjá þessum starfshópi sem hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir leiddi.

Það kemur ekkert á óvart hvernig að þessum málum er staðið. Við horfum upp á það að fjórflokkurinn, sem reyndar eru nú fáir úr hérna í salnum núna — satt best að segja eru nú bara þrír þingmenn staddir í salnum og það er ömurlegt þegar verið er að ræða svona mál að þeir sem eru í landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd skuli ekki láta sjá sig og alls ekki sjávarútvegsráðherra heldur.