136. löggjafarþing — 116. fundur,  26. mars 2009.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[01:18]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir segir að þetta hafi þá sem sagt ekki verið unnið með eðlilegum hætti, að frumvarpið ætti ekki að koma frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd með þeim hætti sem gert var. Það var lagt fram, það var óskað eftir umsögn nokkurra aðila. Þeir mættu síðan á fund, Fiskistofa, hagsmunaaðilar, þ.e. Landssamband smábátaeigenda, Arthur Bogason fyrir þeirra hönd, og svo Magnús Daníelsson útgerðarmaður úr Njarðvíkum. Þeir fundu þessu frumvarpi raunverulega allt til foráttu. Hafi menn viljað leggja frumvarpið fram í góðri trú hlutu þeir að skipta um skoðun eftir að hlusta á þá og taka tillit til þeirra sjónarmiða, bæði Arthurs Bogasonar og Magnúsar Daníelssonar, og ekki síst Þórðar Ásgeirssonar hjá Fiskistofu sem sagði að við eftirlit með þessum bátum, með kvótasetningu þessara báta, frístundabáta, þyrfti verulega að bæta við fjárveitingum til Fiskistofu sem er eitt af fáum fyrirtækjum sem hefur ekkert verið skorið niður hjá. Það er spurning hvort Fiskistofa á rétt á sér með 840 milljónir í fjárframlög á ári á sama tíma og fíkniefnalögreglan fær 300 milljónir. Það er dálítið skrýtið að líta þannig á að sjómennirnir séu hættulegri en fíkniefnainnflytjendur.

Ég ætlaði samt ekki að ræða um það, ég ætlaði að ræða frekar það álit Þórðar Ásgeirssonar á því að það mundi kosta mikla peninga að kvótasetja þessa báta. Þess vegna segi ég: Drögum þetta frumvarp til baka.