136. löggjafarþing — 116. fundur,  26. mars 2009.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[01:28]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Fl):

Herra forseti. Hér er verið að ræða frumvarp til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Fyrst þegar frumvarpið var lagt fram bað formaður sjávarútvegsnefndar um gott veður fyrir málinu vegna þess að svo margt mikilvægt væri í því, t.d. mikilvægi þess að komið yrði á regluverki í sambandi við ferðaþjónustu, þ.e. fiskveiðar í tengslum við ferðaþjónustuna, og að ákveðnar reglur þyrfti að hafa um það.

Málið mætti velvilja okkar allra í sjávarútvegsnefnd, þar með talið mín og hv. þm. Grétars Mars Jónssonar. Reyndar var þar líka ákvæði, sem sást mjög glöggt strax, um að þeir sem hafa haft rækjukvóta þyrftu ekki að greiða veiðigjald nema af lönduðum afla rækju. Smáumræða fór fram um það og m.a. minnt á að ýmsir hefðu óskað eftir því að fá að veiða rækju þegar menn hirtu ekki um það, svokallaðir handhafar kvótans, þeir sem áttu kvótann vildu ekki leyfa að veiða hann nema þeir fengju pening fyrir. Síðan þegar þeir sjá hag í því vegna lækkandi olíuverðs, gríðarlega lækkandi olíuverðs og ýmislegs annars, að hagkvæmt er orðið að veiða rækjuna þá vildu þeir komast hjá því að greiða venjubundið veiðigjald. Við bentum á þetta og þá var ákveðið að það yrði ekki haft með í málinu.

Í 1. gr. er einnig rætt um að mönnum sé heimilt að veiða í svokölluðu fræðsluskyni og það er mjög gott mál sem við erum öll sammála um. Til eru menn sem hafa haft áhuga á því að leyfa ungum drengjum sérstaklega, og sjálfsagt ungum stúlkum líka í einhverjum tilvikum, að koma um borð í bátinn sinn og kenna þeim að veiða, kenna þeim handbrögð til sjós en það hefur ekki verið hægt vegna þess að ekki hefur verið kvóti fyrir því. Þetta er líka mjög gott mál.

Einnig er mjög gott þegar menn greina á milli karfategunda, ef frumvarpið verður samþykkt eða þessi liður laganna, því að áður var alltaf horft á karfann sem eina tegund en núna er verið að tala um annars vegar gullkarfa og hins vegar djúpkarfa, og það er ágætt.

Síðan kemur að þessum nýja atvinnuvegi. Segja má að þar hafi verið svolítill gambítur eða að það atriði hefði mátt skoða betur. Ég viðurkenni fyrir mitt leyti að ég hefði viljað skoða það betur áður en ég gerðist flutningsmaður þessa frumvarps. Fyrir nefndina komu hagsmunaaðilar svokallaðir og bentu á ýmis atriði í frumvarpinu sem í raun er mjög erfitt að samþykkja, þ.e. að samþykkja frumvarpið ef það verður algjörlega óbreytt, ekki síst með tilliti til þess sem forstjóri (Gripið fram í.) Fiskistofu sagði, að það þyrfti nánast einn eftirlitsmann til að fylgjast með á hvern bát sem væri að veiða, ég tala nú ekki um ef bara má veiða fimm fiska á stöng eða tíu kíló. Við sjáum að það er náttúrlega atvinnuskapandi, það er ekki bara atvinnuskapandi í ferðaþjónustunni heldur líka fyrir eftirlitsiðnaðinn. En við sjáum auðvitað að þetta er orðin ein allsherjarvitleysa.

Síðan vil ég geta þess, herra forseti, að talað hefur verið um tvö fyrirtæki í þessari grein og er annað þeirra nefnt Hvíldarklettur. Það fyrirtæki er núna til sölu. Ég vona að það sé samt ekki vegna þess að það hafi gengið illa rekstrarlega, mér er í sjálfu sér ekki kunnugt um það. Hins vegar þegar við hugsum um þessa nýju atvinnugrein og þær aðstæður sem núna eru í landinu vaknar sú spurning hvort ekki væri rétt að bíða með þessi ákvæði, herra forseti, vegna þess að kreppa er í landinu og núna eru allt aðrar aðstæður en þegar frumvarpið var fyrst lagt fram af fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, Einari Kristni Guðfinnssyni. Bankahrun hefur orðið og 15 þúsund manns eru atvinnulausir á Íslandi. Við þurfum því að gera allt sem við getum til þess að efla atvinnuvegina. Því mætti alveg eins spyrja hvort þessi 200 tonn sem hafa verið veidd mættu ekki koma sem styrkur til þessarar atvinnugreinar með sama hætti og 500 tonnin koma í þorskeldið, áframeldi á þorski. Segjum að við mundum leggja þessi 200 tonn sem styrk inn í atvinnugreinina, við erum að tala um fjárhæð sem nemur 30 millj. kr., þá væri hægt að byggja atvinnugreinina betur upp frekar en að selja þurfi fyrirtæki, vegna þess að vextir hafa hækkað og skuldir, sem eru sjálfsagt í erlendri mynt, hafa aukist og lán hafi líka hækkað vegna verðtryggingar. Ég held að það ætti að koma til íhugunar í nefndinni, þegar við skoðum málið aftur, að þetta mundi vera sérstakur styrkur til eflingar atvinnugreininni sem er ein glæsilegasta sprotagrein í íslenskri ferðaþjónustu í dag og mundi gefa mönnum byr undir báða vængi í því að vilja ganga inn í greinina og starfa á þeim vettvangi.

Eitt einkennir þetta líka, það er það sem kom fram í máli, að því er mig minnir, Friðriks J. Arngrímssonar, framkvæmdastjóra LÍÚ, ég held að hann sé framkvæmdastjóri, þ.e. sú hugsun að ekki megi synda fiskur í sjónum án þess að hann sé eign einhvers. Ef fiskur syndir í hafinu þarf hann að vera eign einhvers útgerðarmanns. Þetta minnir á vangavelturnar um að fé geti ekki verið án hirðis. Það má eiginlega segja að yfirfært sé þetta: Fiskur getur ekki verið án útgerðarmanns, án eiganda. Þetta er í huga mínum nokkur meinloka.

Í nefndinni kom fram spurningin: Hvað á að gera ef menn standa á ströndinni með sex metra langa sjóstöng, henda út færi og veiða allt í einu tvö, þrjú hundruð kíló af fiski? Mega þeir fara með hann heim, flaka hann, salta hann og selja hann — eða verður að setja það inn í kvótakerfið líka? Í nefndinni komu upp vangaveltur um eftirfarandi, þ.e. tvær konur sem reru til fiskjar og fóru með fiskinn til Mæðrastyrksnefndar og gáfu hann til fátækra. Spurningin var: Er þetta löglegt eða ólöglegt? Ég man ekki betur en að svarið hafi verið: Líklega er þetta ólöglegt. Þá sjáum við hvernig kerfið okkar er orðið í þessu.

Ég vil að lokum segja, herra forseti, að við höfum ekkert ráð á því í dag í samfélagi þar sem hrun hefur orðið, þar sem yfir 10 þúsund manns eru atvinnulausir, að leyfa ekki fólki að fara út á sjó á þriggja, fjögurra, fimm tonna trillum. Það er allt til reiðu, þekkingin er til reiðu og tækin eru til reiðu, nema það eitt að menn geta ekki hugsað sér að leyfa þrjú, fjögur hundruð trillum af þessari stærð að sigla út á flóana, út á firðina okkar til að veiða og bjarga sjálfum sér, til að hafa atvinnu, til að hafa eitthvað að gera og líka til að afla tekna. Nei, það má ekki vegna þess að mennirnir eða konurnar sem ætla að gera þetta verða að borga 200 kr. í leigugjald fyrir það til útgerða, sem eru margar hverjar algjörlega á hausnum, ekki vegna þess að eitthvert sérstakt bankahrun hafi komið heldur líka vegna þess að þær hafa leiðst út í margan annan rekstur en útgerð.

Ég tek undir með hv. þm. Grétari Mar Jónssyni að dapurlegt er að Alþingi Íslendinga skuli ljúka störfum án þess að afgreiða frumvarp frjálslyndra um frjálsar handfæraveiðar. Það er ekki verið að tala um að veiða hundruð tonna á bátana, eins og gert er á sumum öflugum línubátum, heldur nokkra tugi tonna, 30 tonn. Hvað gerir það fyrir einn mann? Það eru 6 milljónir. Það stendur undir rekstri báts og tveir geta verið um borð. Miðað við það að við samþykktum lög fyrir hrunið um að flytja mætti aflaheimildir um 30% á milli ára getum við í því ljósi meira að segja afturkallað það ef það er svo erfitt út af fiskverndarsjónarmiðum, við getum þá bara afturkallað það og sett yfir á trillurnar.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða meira um þetta en minni á orð hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur, sem flutti málið áðan, sem sagði að auðvitað færi það aftur til nefndar og þyrfti aukna og meiri umfjöllun. Hv. þingmaður er flutningsmaður þessa máls og er þá nema von að fleiri mæli þessi orð hér í þingsalnum í dag og menn jafnvel skrifi undir það en þá með fyrirvörum, ekki síst í ljósi þess að fólk kom til nefndarinnar sem benti á ýmis atriði sem betur mættu fara. Við eigum að hafa það sem betra er og réttara frekar en að binda okkur við einhvern bókstaf sem getur jafnvel verið vitleysa.