136. löggjafarþing — 116. fundur,  26. mars 2009.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[01:42]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlýt að benda á að hv. þm. Karl V. Matthíasson er flutningsmaður að málinu. Hann samþykkti að málið væri lagt fram í hans nafni sem nefndarmanns í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd en þegar málið kemur hér inn og við ræðum það um miðja nótt kemur fram að hann segist vera með einhverja fyrirvara. Hann lagði málið fram í þinginu og fram komu engir fyrirvarar. (GMJ: Til hvers þá að hlusta á gesti í nefndinni?)

Hæstv. forseti. Málið kom fram með samþykki þeirra nefndarmanna sem eru í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, annars hefði málið ekki komið fram. Maður hlýtur að ætlast til þess að þeir þingmenn sem sitja í nefndinni sýni þá ábyrgð að standa við þau mál. Það getur vel verið að menn komist að því við vinnslu málsins að menn vilji breyta málinu (Gripið fram í.) en ekki er hægt að segja eftir á að menn hafi einhverja fyrirvara við málið. Það hefði þá þurft að koma fram í nefndinni áður en málið var lagt fram. (Gripið fram í: Það var óskað eftir frjálsum ... inn í umræðuna.)