136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

gjaldeyrishöft og jöklabréf.

[15:25]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Það er rétt að ein lausn eða hluti af lausn gæti einmitt falið í sér slík eignaskipti, þ.e. að aðilar sem eiga erlendar eignir, hvort sem það eru íslenskir lífeyrissjóðir eða aðrir, skipti á þeim fyrir þessi krónubréf eða innstæður í krónum eða aðrar eignir sem núna eru fastar vegna gjaldeyrishaftanna. Ég sjálfur er hlynntur þeirri leið. Hún gæti að minnsta kosti verið hluti lausnarinnar.

Önnur lausn eða hluti af lausn gæti verið að bjóða út skuldabréf til einhvers tíma sem eru þess eðlis að þegar þau koma á gjalddaga er hægt að skipta þeim út fyrir evrur eða annan erlendan gjaldmiðil og færa úr landi. Það er leið sem Seðlabankinn hefur verið að kanna og ég held að báðar þessar leiðir gætu í sjálfu sér verið leiðir út úr þessu. En hvorugri hefur verið hrint í framkvæmd.