136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

frumvarp um endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

[15:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður, fyrirspyrjandi og aðrir hljóti að átta sig á að það væri ekki hæfi að fara að nefna nöfn fyrirtækja en … (KVM: Atvinnugreinar.) Já. En þessu er hins vegar nokkuð vel lýst í greinargerð með frumvarpinu, að ég held. Af sjálfu leiðir þegar talað er um þjóðhagslega mikilvæga starfsemi sem tengist öryggi eða innviðum samfélagsins, almannaþjónustu, fæðuöryggi eða öðru slíku, geta menn hugsað að það séu þá líklega fyrirtæki t.d. á sviði samgangna, fjarskipta, fæðuöryggis og annarra slíkra sviða þar sem starfsemin er þannig í eðli sínu að hún skiptir sköpum og er undirstaða einhverrar annarrar og almennrar starfsemi í félaginu. Það er síður ætlunin og í raun ekki gert ráð fyrir því nema í einhverjum undantekningartilvikum að hefðbundin atvinnufyrirtæki í samkeppnisrekstri, eitt af 20–30 á þessu sviði kæmi inn til svona fyrirtækis þannig að ætlunin er að hafa inngripið eins lítið og mögulegt er. Má ég minna á að það er eingöngu spurning um fyrirkomulag hvort banki í eigu ríkisins (Forseti hringir.) greiðir úr málunum sjálfur, (Forseti hringir.) eftir atvikum í eign umsýslufélaga á sínum vegum, eða hvort það er fært yfir til (Forseti hringir.) eignaumsýslufélags í eigu hins sama ríkis.