136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

arðgreiðslur og laun hjá Íslandspósti.

[15:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það var á dögunum að hæstv. forsætisráðherra talaði um siðleysi hjá fyrirtækjum þegar þau greiddu út arðgreiðslur á ávöxtun á hlutafé við þær aðstæður sem eru í samfélaginu. Það fyrirtæki sem helst var gagnrýnt fyrir þetta af hálfu hæstv. forsætisráðherra — og ég held að hæstv. fjármálaráðherra hafi tekið undir þessa gagnrýni — var að greiða sér 8% ávöxtun á nafnverð hlutafjár, sem tæplega getur talist há ávöxtun í því vaxtaumhverfi sem við búum við í dag.

Íslandspóstur er fyrirtæki sem er 100% í eigu ríkisins og þar er hlutaféð á milli 1.400 og 1.500 millj. Á árunum 2006 og 2007 skilaði Íslandspóstur um það bil 270 millj. kr. hagnaði á rekstri sínum hvort ár. Þá lét ríkissjóður Íslandspóst greiða sér arð af nafnvirði hlutafjár um 7–8%, um 90 millj. Þær 180 millj. sem eftir voru af hagnaði frá fyrra ári fékk fyrirtækið að nota við uppbyggingu á starfsemi sinni úti um land, til að auka atvinnu.

Árið 2008 var hagnaður af rekstri Íslandspósts 78 millj. kr. Hæstv. fjármálaráðherra lét fyrirtækið greiða ríkissjóði 80 millj. í arð eða um 6% af ávöxtun á nafnfé hlutafjár. Fyrst við tölum um siðleysi, sem síðan var það í raun ekki þegar viðkomandi fyrirtæki hækkaði laun starfsmanna, vil ég spyrja (Forseti hringir.) hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki standi til í ljósi þessa (Forseti hringir.) að hækka laun starfsmanna Íslandspósts eins og (Forseti hringir.) kjarasamningar segja til um.