136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

arðgreiðslur og laun hjá Íslandspósti.

[15:35]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég held að öllum sé ljóst hvers vegna þau ummæli féllu sem raun ber vitni um ákveðin fyrirtæki sem höfðu á sama tíma ekki hækkað laun í samræmi við kjarasamninga en greiddu sér síðan út arð. Það er samhengi málsins, geri ég ráð fyrir, sem menn höfðu í huga þegar um þetta var rætt.

Varðandi Íslandspóst þekki ég að sjálfsögðu ekki né ber ég ábyrgð á arðgreiðslum þess fyrirtækis undanfarin ár og ekki heldur á þessu því að það hefur væntanlega verið ákveðið í fjárlögum yfirstandandi árs af fráfarandi ríkisstjórn. Ég veit að þar er bara um eina heildartölu að ræða, áætlun um sundurliðun á þeim arðgreiðslum er væntanlega til bæði hjá fjárlaganefnd og uppi í fjármálaráðuneyti. Eftir því sem ég best veit um Íslandspóst er nú gert ráð fyrir lægri arðgreiðslum á þessu ári en var árin á undan. Hvort það svarar hv. þingmanni og gerir hann sáttari en ella veit ég ekki en málið hefur ekki verið í mínum höndum, það hefur ekki komið til minna kasta og var ekki ákveðið af mér þar sem fjárlög þessa árs voru afgreidd og eru á ábyrgð fyrri ríkisstjórnar.